Tugir þúsunda fylgjast með „Kattarshians“

16.02.2017 - 19:46
Fjögur systkini sem búa saman í höfuðborginni eru nýjustu sjónvarpsstjörnur Íslands. Tugþúsundir Íslendinga hafa fylgst með þeim í beinni útsendingu á netinu, sem gengur allan sólarhringinn.

Í agnarsmáa en haganlega innréttuðu húsi í Reykjavík búa systkinin Bríet, Ronja, Stubbur og Guðni. Ferfætlingarnir fundust í verksmiðju í höfuðborginni fyrir nokkrum vikum. Síðan þá hefur líf þeirra tekið stakkaskiptum, þau eru orðin sjónvarpsstjörnur í raunveruleikaþættinum Kattarshians, sem er samstarfsverkefni framleiðslufyrirtækisins Skots, SagaFilm, Símans og vefsíðunnar Núítmans, sem sýnir beint frá lífi kettlinganna allan sólarhringinn

Það ætti að vera lítið mál að finna nýtt heimili fyrir þessi frægu systkini.

„Það verður nú ekkert mál. Það er búið að hafa mikið samband við okkur bæði í tölvupósti og síma. Ef við gætum þá værum við búin að koma þeim þrisvar sinnum fyrir á ný heimli,“ segir Halldóra Snorradóttir, starfsmaður í Kattholti. Á samfélagsmiðlinum Twitter fara fram líflegar umræður um hegðun og atferli ferfætlinganna. Leikgleði þeirra og forvitni gleður tístara, nú eða þegar þeir dást að forsetanum. 

Nýleg rannsókn frá Indiana-háskóla í Bandaríkjunum sýnir svo ekki verður um villst að það að horfa myndbönd af kettlingum, bætir geðheilsuna og veitir manni aukið þrek til takast á við grámyglu hversdagsins. Halldóra segir að áhorfendur geti fundið sjálfa sig í systkinunum, sem eru sannarlega ólík. 

„Til dæmis þá hefur fólk tekið eftir því að Guðni er dálítið sér. Hann er einfari að eðlisfari og heldur sig frá hinum. Svo eru Stubbur og Bríet mjög mannelsk. Og svo er Ronja. Hún elskar baðið og er alltaf í baði. Svo þau eru öll mjög ólík og skemmtileg,“ segir Halldóra. 

Tugir þúsunda hafa horft á útsendinguna, en mest áhorf er á morgnana og seint á kvöldin. 

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV