Tugir handteknir fyrir gripdeildir í Flórída

Tugir manna voru handteknir í Miami, Fort Lauderdale og víðar í Flórída í nótt vegna gripdeilda og innbrota í skjóli stormsins. Hópur grímuklædds fólks braust inn í íþróttavöruverslun í Miami og ruplaði þar og rændi, aðallega íþróttaskóm. Fréttamaður NBC-sjónvarpsstöðvarinnar varð vitni að innbrotinu og hringdi á lögreglu, sem komst ekki á vettvang fyrr en klukkustundu síðar. Tveir þjófanna voru handteknir á staðnum og einhverjir fleiri í framhaldinu.

Lögregla í Miami-Dade sýslu segist hafa handtekið 28 manns fyrir gripdeildir á meðan stormurinn fór yfir. Í Fort Lauderdale voru minnst níu handteknir fyrir innbrot í verslanir og fregnir berast af handtökum óprúttinna þjófa sem hugðust nýta sér fámennið og fárviðrið til að auðgast með þessum hætti í fleiri borgum og bæjum Flórída.

Þá stóðu eigendur einbýlishúss í Broward-sýslu tvo táninga að innbroti í húsið í gegnum eftirlitsmyndavél sem þau fylgdust með úr öruggri fjarlægð frá Irmu. Lögregla fór á staðinn og handtók þjófana. Annar þjófanna var skotinn þegar hann reyndi að koma sér hjá handtöku en mun ekki vera hættulega særður. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV