Tsai Ing-wen sigraði á Taívan

16.01.2016 - 12:05
Erlent · Asía
epa05104148 Chairwoman of the pro-independence Democratic Progressive Party (DPP) and presidential candidate Tsai Ing-wen gestures as she casts her vote in a school in New Taipei City, Taiwan, 16 January 2016. Several polls conducted last week suggest
Tsai Ing-wen, formaður Lýðræðislega framfaraflokksins á Taívan og verðandi forseti.  Mynd: EPA
Tsai Ing-wen, formaður Lýðræðislega framfaraflokksins, verður næsti forseti Taívans, eftir sigur í forsetakosningum í dag. Hún verður fyrsta konan til að gegna því embætti.

Þegar búið var að telja ríflega helming atkvæða í kosningunum á Taívan hafði Tsai fengið rúm 58 prósent. Keppinautur hennar Eric Chou, frambjóðandi Koumintang, var með 32,5 prósent. 

Chou hefur þegar játað sig sigraðan og beðið fylgismenn Koumintang afsökunar. Flokkurinn hefði ekki staðið sig sem skyldi og brugðist kjósendum.

Kosningarnar á Taívan snerust einkum um versnandi efnahag og aukin samskipti við stjórnvöld í Peking, sem Koumintang, fráfarandi stjórnarflokkur hefur lagt áherslu á undanfarin ár.

Einungis nokkrir mánuðir eru síðan Ma Ying-jeou, fráfarandi forseti Taívans, hitti Xi Jinping, forseta Kína, í Singapúr. Það hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum.

Lýðræðislegi framfaraflokkurinn er fylgjandi sjálfstæði Taívans. Stjórnmálaskýrendur segja að nú ríki óvissa um framtíðarsamskipti við Peking. Tsai hefur hins vegar lýst yfir að hún ætli að leggja áherslu á óbreytt ástand í þeim samskiptum. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV