Trúnaðarbresturinn sé framsóknarmegin

12.02.2016 - 08:11
Die mehr als 1.900 Einwohner zählende, ehemals selbstständige Stadtgemeinde Borgarnes gilt als als Heimatort des Dichters und Sagahelden Egill Skallagrímsson, dessen Vater Skallagrímr Kveldúlfsson laut Landnámabók zu den ersten Siedlern dieses Gebiets
 Mynd: Ulrich Latzenhofer
Þreifingar um myndun nýs meirihluta eru hafnar í Borgarbyggð milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eftir að það slitnaði upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks síðdegis í gær.

Sjálfstæðismenn lögðu á sveitarstjórnarfundi í gær fram tillögu um að hætta við umdeilda ákvörðun um lokun Andakílsskóla og færslu bekkjadeilda inn í leikskólann Andabæ. Þetta var samþykkt með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna  en  Framsóknarmenn sátu hjá.

Björn Bjarki Þorsteinsson , oddviti Sjálfstæðisflokks, segir að viðræður séu hafnar um myndun nýs meirihluta við Samfylkinguna.  „Við áttum samtal um það í gær og hittumst í gærkvöldi til að þreifa á málum og ætlum að halda áfram samtali í dag.“ Hann segir að stefnt sé að því að ná botni í þær viðræður í dag.   

Björn Bjarki segir að sjálfstæðismenn hafi kynnt sín sjónarmið fyrir samstarfsflokknum á fundi á þriðjudag að þeir vildu endurmeta stöðuna varðandi skipulag skólamála. Töluverðar hagræðingaraðgerðir hafi verið í skólamálum sem hafi mætt hörðum viðbrögðum frá Hvanneyri.

Framsóknarmenn hafa talað um að trúnaðarbrestur hafi komið upp í samstarfinu. Björn tekur undir það.  „Það verður trúnaðarbrestur í gær, það er alveg satt og rétt að nota það orð. Við kynntum þessi sjónarmið okkar  á þriðjudaginn fyrir okkar samstarfsfólki og fengum hörð viðbrögð en við vorum heil í því að finna leið til að skapa sátt. Síðan fréttist af því í gærmorgun að samstarfsfólk okkar hafi hafið þreifingar með öðrum aðilum í sveitarstjórn um meirihlutasamstarf.  Þannig að mér finnst nú trúnaðarbresturinn gerast þar fyrst og fremst. Ég tek það fram að samstarfið hefur verið fram til þessa með ágætum.“ 

Sjálfstæðismenn hafi fram að því viljað vinna með framsóknarmönnum í gegnum þetta. „En svo þegar þessi tíðindi berast í gær, þá var ekki aftur snúið með það. Það var ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi.“ 

Magnús Smári Snorrason, bæjarfulltrúi Samfylkingar, staðfestir að framsóknarmenn hafi kannað möguleika á meirihlutasamstarfi með samfylkingu í gær. Samfylkingarmenn eru í oddastöðu tvo tvo bæjarfulltrúa en sjálfstæðismenn og samfylking með þrjá hvor. Vinstri hreyfingin grænt framboð er síðan með einn bæjarfulltrúa. 

Björn segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um stöðu sveitarstjóra. Kolfinna Jóhannsdóttir var ráðin til starfans árið 2014. „Við munum ræða það núna í morgunsárið að fara yfir það mál og ræða næstu skref.“