Trump vildi ekki afneita Ku Klux Klan

28.02.2016 - 19:04
epa05052454 US Republican Presidential candidate Donald Trump speaks at a campaign rally at the Prince William County Fairgrounds in Manassas, Virginia, USA, 02 December 2015. Trump is still leading in national polls in the early caucus and primary states
Donald Trump.  Mynd: EPA
Donald Trump, sem sækist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni, neitaði í dag að fordæma Ku Klux Klan samtökin. Samtökin, sem oft eru skammstöfuð KKK og hafa lengi verið þekkt fyrir kynþáttahatur, hafa lýst yfir stuðningi við framboð Trumps. Þegar hann var beðinn um álit sitt á þessum stuðningi í beinni útsendingu sagðist Trump ekki vilja tjá sig fyrr en hann hefði skoðað málið betur og komist að því hvað samtökin stæðu fyrir.

Hann margítrekaði að hann vissi ekkert um málið og vildi ekki afneita stuðningi samtaka sem hann kynni ekki deili á. Það vekur athygli í ljósi þess að síðasta föstudag sagðist hann þvo hendur sínar af stuðningi Davids Duke, sem er þekktur fyrrverandi leiðtogi KKK.

Þá hefur verið grafin upp gömul frétt sem sýnir að fyrir sextán árum gagnrýndi Trump harðlega stjórnmálamenn sem hann sagði njóta stuðnings Dukes og Ku Klux Klan. Á þeim tíma kvaðst Trump ekki vilja halda slíkan félagsskap.

 

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV