Trump við Brigitte: „Þú ert í svo góðu formi“

14.07.2017 - 08:15
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sakaður um karlrembu vegna ummæla sem hann lét falla þegar hann hitti Brigitte Macron, forsetafrú Frakklands,. Trump hrósaði Brigitte fyrir útlit hennar og sagði: „Þú ert í svo góðu formi.“

Trump kom í gær  til Frakklands í opinbera heimsókn ásamt Melaniu Trump, forsetafrú.  

Frönsku forsetahjónin tóku á móti Trump-hjónunum við Hotel des Invalides og eftir að stutta skoðunarferð sneri Donald Trump sér að Brigitte Macron, veifaði höndum og sagði: „Þú ert í svo góðu formi.“ Trump endurtók ummælin í eyru franska forsetans en sneri sér síðan aftur að Brigitte, horfði á hana og sagði: „Falleg“.

Á vef Guardian kemur fram að forsetinn hafi verið gagnrýndur á samfélagsmiðlum þar sem ummælin eru sögð hafa verið bæði „óviðeigandi“ og „ógeðfelld.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump er sakaður um kvenfyrirlitningu og karlrembu. Hann hefur verið  gagnrýndur fyrir ummæli sín um útlit Hillary Clinton, grínistans Rosie O'Donell og Kim Kardashian og Heidi Klum.

Þá vakti það mikla reiði þegar myndskeið af samræðum forsetans við þáttastjórnanda Access Hollywood var lekið til fjölmiðla í október.  Þar heyrðist Trump meðal annars segja að hann væri svo frægur að hann gæti gripið í klof kvenna.

Trump er í sinni fyrstu opinberu heimsókn í Frakklandi. Hann mun meðal annars taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni Bastillu-dagsins en þess verður einnig minnst að 100 ár eru síðan fyrstu bandarísku hermennirnir komu til Evrópu til að berjast í fyrri heimstyrjöldinni.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV