Trump með stuðning 49% kjósenda Repúblikana

epaselect epa05181226 US Republican presidential candidate Donald Trump gestures as he talks to members of the media in the spin room after the CNN Republican Presidential Primary Debate at the University of Houston's Moores School of Music Opera
 Mynd: EPA
Stuðningur við Trump mælist nú um 49% meðal kjósenda flokksins. Stjórnmálafræðingur segir fátt geta stöðvað sigurgöngu Trumps og spáir stórsigri hans í forkosningum Repúblikana á svokölluðum ofurþriðjudegi. Kosningar standa yfir í ellefu ríkjum Bandaríkjanna hjá hvorum flokki.

Fimm frambjóðendur standa eftir meðal Repúblikana, og mjótt er á mununum meðal þeirra Donald Trump, Ted Cruz og Marco Rubio. Donald Trump þykir líklegur til að standa uppi sem sigurvegari eftir nóttina.

Það lítur allt út fyrir að hjá Repúblikönum að þá muni Trump fara með sigur af hólmi í svo gott sem öllum ríkjunum,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur. „Það voru m.a.s. sumar kannanir farnar að gefa til kynna að hann myndi sigra í Texas, sem myndi líta mjög illa út fyrir Ted Cruz, það er auðvitað hans heimaríki, sem myndi þýða að hann ætti undir högg að sækja það sem eftir er.“  

Hillary Clinton er talin líkleg til að hafa betur í forkosningum Demókrata en mótframbjóðandi hennar Bernie Sanders, en Sanders á þó talinn öruggan sigur í heimaríkinu Vermont. „Clinton er sennilega að fara að vinna - og vinna frekar stórt í  helmingi ríkjanna, en hún mun tapa stórt í Vermont sem er heimaríki Sanders,“ segir Silja Bára. 

Fylgi Trumps eykst meðal kjósenda Repúblikana

Nýjustu skoðanakannanir sýna að Trump á stuðning næstum helmings kjósenda Repúblikanaflokksins. Á sama tíma stíga þingmenn flokksins fram og lýsa yfir að þeir geti ekki stutt Trump sem forsetaefni flokksins. „Þetta er ofboðslega seint fram komið, og ég held að bæði við í fræðasamfélaginu og stjórnmálamenn í Bandaríkjunum hafi hreinlega ekki haft trú á því að Trump myndi ná svona langt og það hafi enginn tekið hann marktækan og þess vegna hefur ekki verið nógu mikil gagnrýni á hann,“ segir Silja Bára.

Mótframjóðendur Trumps hafi einnig vanmetið hann sem andstæðing. „Cruz og Rubio eru rétt á síðustu tíu dögum - tveim vikum farnir að skjóta virkilega hörðum skotum á hann en það bara er ekki að ná í gegn þegar hann er kominn á svona mikla siglingu,“ segir Silja Bára.

Hún segir þó ekki útilokað að Repúblikanaflokkurinn gangi framhjá Trump þegar upp er staðið. „Það sem flokkurinn gæti gert er að koma fram með nýjan frambjóðanda á landsfundi til þess að fá annan frambjóðanda samþykktan heldur en hann.“