Trump fordæmir stjórnvöld í Norður-Kóreu

19.06.2017 - 23:25
President Donald Trump speaks at Mar-a-Lago in Palm Beach, Fla., Thursday, April 6, 2017, after the U.S. fired a barrage of cruise missiles into Syria Thursday night in retaliation for this week's gruesome chemical weapons attack against civilians.
 Mynd: AP
Donald Trump forseti Bandaríkjanna fordæmir stjórnvöld í Norður-Kóreu í yfirlýsingu sem gefin var út eftir að tilkynnt var um andlát Ottós Warmbiers, 22 ára bandarísks háskólanema, sem lést í kvöld. Norður Kórea slepptu honum úr haldi í síðustu viku eftir að hafa haft hann í haldi í 17 mánuði. Þar af hafði hann verið í dái í rúmt ár.

Otto Warmbier var í fyrravor dæmdur til 15 ára þrælkunarvinnu í Norður-Kóreu fyrir að hafa stolið skilti í höfuðborg landsins þegar hann var þar í fimm daga námsferð. 

Hann segir að þetta styrki bandarísk stjórnvöld í þeim ásetningi sínum að koma í veg fyrir að saklaust fólk verði fyrir slíkri meðferð af hálfu stjórnvalda sem virða hvorki hugmyndir réttarríkisins né grundvallar mannréttindi.  

Stjórnvöld í Norður Kóreu halda því fram að Warmbier hafi veikst af bótúlíneitrun, sem er sjaldgæf og alvarleg, fljótlega eftir dómsuppkvaðningu og hafi því verið í dái í meira en ár. Warmbier var fluttur heim til Bandaríkjanna í síðustu viku og komst aldrei til meðvitundar. 

AFP fréttastofan hefur eftir læknum Warmbiers að ekki hafi verið hægt að skera endanlega úr um hvað olli heilaskaðanum. Engin ummerki hefðu fundist um að hann hefði fengið bótúlíneitrun. Miðað við aldur hans megi leiða líkur að því að heilaskaði hans hafi orsakast af hjartastoppi sem hefði stöðvað blóðflæði til heilans. 

Fréttin var uppfærð 20.júní klukkan 17:50, eftir að Bandaríkjaforseti birti færslu um málið á Twitter. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV