Trump bannar transfólki að ganga í herinn

26.08.2017 - 06:29
epa06158915 US President Donald J. Trump returns to the The White House after a trip with stops in Arizona and Nevada; in Washington, DC, USA, 23 August 2017.  EPA/CHRIS KLEPONIS
 Mynd: EPA  -  SIPA PRESS
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur gefið yfirstjórn Bandaríkjahers skrifleg fyrirmæli um að framfylgja ekki áætlun sem lögð var fram í forsetatíð Obamas og miðaði að því að gera transfólki jafnauðvelt að ganga í herinn og hverjum öðrum. Er þetta í samræmi við yfirlýsingar hans frá því í júlí, um að hann hygðist banna transfólki að gegna herþjónustu.

Í fyrirmælunum er hernum einnig bannað að nota fjármuni til að greiða fyrir læknisverk á borð við kynleiðréttingu fyrir transfólk sem þegar er í röðum hersins. Þá gefur forsetinn embættismönnum heimavarna- og varnarmálaráðuneytis fyrirmæli um að finna út úr því, hvernig taka skuli á málefnum transfólks sem nú er í hernum „með tilliti til hernaðarlegrar færni þess, vilja og getu til mannvíga, liðsanda, sparnaðarsjónarmiðum, gildandi og viðeigandi löggjöf ög öllum þeim þáttum öðrum, sem máli geta skipt í þessu sambandi,“ að sögn fulltrúa Hvíta hússins, sem kynnti fréttamönnum fyrirmæli forsetans um þetta efni.

Aðspurður neitaði hann að svara því afdráttarlaust, hvort transfólk sem þegar er í hernum fái að starfa þar áfram en ýjaði að því, að núverandi ríkisstjórn hygðist hverfa aftur til þeirrar stefnu sem herinn fylgdi áður en Obama gaf út sína tilskipun í fyrra, Samkvæmt henni mátti enginn sem var opinberlega trans gegna herþjónustu. Hins vegar legði Trump það í hendur ráðherra heimavarna og varnarmála, nákvæmlega hvernig þeir vildu fara með málefni transfólks sem er í hernum.

Fulltrúinn þvertók fyrir að í þessu fælist mismunun gagnvart transfólki eða viðsnúningur á stefnu Trumps, sem hét því í kosningabaráttunni 2016, að hann myndi beita sér af krafti fyrir jöfnum réttindum hinsegin fólks. Fyrirmælin nú væru alfarið og eingöngu tekin með öryggishagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

1,3 milljónir manna gegna herþjónustu í Bandaríkjunum um þessar mundir. Áætlað er að í þeirra röðum séu um 15.000 trans-karlar og trans-konur.