Trump átti í vök að verjast í nótt

Republican presidential candidate, businessman Donald Trump, second from left, gestures as Sen. Marco Rubio, R-Fla., Sen. Ted Cruz, R-Texas, and Ohio Gov. John Kasich watch him a Republican presidential primary debate at Fox Theatre, Thursday, March 3,
 Mynd: AP
Frambjóðendurnir fjórir sem eftir eru í kapphlaupinu um útnefningu repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í haust tóku þátt í kappræðum í Detroit í Michiganríki í nótt. Hart var sótt að Donald Trump sem reyndi hvað hann gat til að verjast ýmsum ásökunum.

Trump var bent á það af Megyn Kelly, fréttamanni Fox sjónvarpsstöðvarinnar sem stóð fyrir kappræðunum, að hann hafi margoft skipt um skoðun á málefnum, jafnvel daginn eftir ákveðna skoðun. Hann sagði það vera merki um styrk að geta skipt um skoðun, hann væri sveigjanlegur og hann þekkti engan sterkan leiðtoga sem ekki væri sveigjanlegur. Hann stóð þó við fyrri yfirlýsingar sínar um að beita skuli pyntingum við yfirheyrslur og ráðast að fjölskyldum hryðjuverkamanna.

Háskólinn fór illa með Trump

Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður Flórídaríkis, nýtti megnið af sínum tíma í að ráðast að Trump. Hann benti meðal annars á fjölda dómsmála sem Trump væri að takast á við vegna háskóla sem ber nafn hans. Nemendur skólans voru mjög ósáttir við námið sem var langt frá væntingum og miklu dýrara en var auglýst. Trump varðist því með því að kalla Rubio lygara og sagði skólann fá fína einkunn í dag frá matsaðilum. Erfitt er að meta sannleiksgildi svars Trumps þar sem skólinn hefur ekki verið metinn í nokkur ár. Síðasta mat var gert 2010 og þá hlaut skólinn einkunnina D.

Cruz maldaði í móinn

Ted Cruz, sem stendur hvað næst Trump í könnunum, hafði sig frekar hægan í nótt miðað við fyrri kappræður. Hann reyndi nokkrum sinnum að róa þá Rubio og Trump niður þegar hvað hæst lét á milli þeirra og bað Trump ítrekað um að anda rólega. Hann nýtti þó tækifærið til þess að hnýta í Trump og segja hann vera hluta af hinu spillta stjórnkerfi í Washington þar sem hann hafi styrkt Hillary Clinton í kosningabaráttu hennar árið 2008.

Helsta varnaraðferð Trump í nótt voru framíköll. Hann sagði andstæðinga sína lygara og virtist eiga í erfiðleikum með að svara ásökunum. Óljóst er hvaða áhrif árásir næturinnar eiga eftir að hafa á Trump í komandi forkosningum. Hingað til hefur hann staðið árásir nokkuð vel af sér og jafnvel vaxið ásmegin. Þá hefur honum hins vegar oft tekist að svara þeim betur.

Ein undarlegustu ummæli kappræðnanna féllu af vörum Trumps. Marco Rubio hafði þá sagt Trump vera með smáar hendur. Trump mótmælti því og sýndi áhorfendum hendur sínar og spurði hvort þær væru nokkuð smáar. Í beinu framhaldi sagði hann marga miða stærð handa við aðra líkamshluta. Þar sagðist hann ekki eiga við nein vandamál að stríða.

Kasich kom vel út

Frekar lítið fór fyrir John Kasich. Þegar hann kom í mynd og fékk spurningar beitti hann þeirri aðferð að svara tiltölulega málefnalega og sagði frá stefnumálum sínum og reynslu í stjórnmálum. Hann stærði sig af góðum árangri sem þingmaður og hann hafi unnið með mörgum fyrrverandi forsetum.

Hillary Clinton nýtti tækifærið í nótt og sýndi skoðun sína á kappræðunum með nokkrum færslum á Twitter.