Treystir þjóðinni til að kjósa ekki Trump

17.02.2016 - 01:27
epa05164039 US President Barack Obama speaks durring the US-ASEAN Summit at Sunnylands in Rancho Mirage, California, USA, 15 February 2016. The United States is hosting a meeting with leaders from the Association of South-East Asian Nations (ASEAN) for
 Mynd: EPA
Barack Obama biðlar til þingmanna repúblikanaflokksins að ýta flokkshollustu til hliðar þegar nýr hæstaréttardómari verður tilnefndur í stað Antonin Scalia, sem lést um helgina. Hann segir stjórnarskrána vera skýra hvað tilnefningu dómara varðar. Obama gagnrýnir einnig málflutning repúblikana í garð múslima og segist ekki hafa trú á því að Donald Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna.

Obama hélt blaðamanna fund í Rancho Mirage í Kaliforníuríki í kvöld eftir fund með fulltrúum ríkja í Suðaustur-Asíu. Hann segist harðákveðinn í því að tilnefna nýjan hæstaréttardómara í stað Scalia. Stjórnarskráin kveði skýrt á um hlutverk hans og hann biður repúblikana um að láta flokkslínur ekki hafa áhrif á atkvæði sín. Hann segir meinfýsni og biturð koma í veg fyrir að hlutir gangi eðlilega fyrir sig á þinginu, en repúblikanar eru í meirihluta bæði í öldungadeild og fulltrúadeild þingsins. Hann segir kjör á nýjum hæstaréttardómara geta lyft þinginu á hærra plan.

Treystir þjóðinni til að velja ekki Trump

Starf forseta er ekkert líkt því að stjórna raunveruleikasjónvarpsþætti að sögn Obama, og beinir hann þeim orðum að Donald Trump, sem rís hæst af frambjóðendum repúblikanaflokksins í forvali flokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember á þessu ári.

Obama segir tillögu Trumps um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna koma illa við sig. Hann segist treysta Bandaríkjamönnum nógu vel til þess að Trump verði ekki forseti. Þeir átti sig á að starf forseta sé alvöru starf en ekki auglýsing eða markaðssetning.

Trump svaraði Obama á kosningafundi í Beaufort í Suður Karolínu. Hann sagði Obama hafa staðið sig afar illa í starfi. Ef Trump hefði boðið sig fram gegn Romney fyrir fjórum árum væri Obama ekki forseti í dag.

Valdið til fólksins

Obama kom víða við á blaðamannafundinum. Hann segir að deiluna við Suður-Kínahaf, þar sem Kínverjar eru að búa til eyju með flugvelli, verði að leysa friðsamlega. Kínversk stjórnvöld verði með óyggjandi hætti að minnka spennuna sem hefur myndast vegna framkvæmdanna. Það geri þau með því að stöðva frekari framkvæmdir, uppgræðslu og hervæðingu á svæðinu.

Þá leggur Obama áherslu á að valdið verði aftur fært í hendur fólksins í Taílandi, en þar hefur herinn ráðið ríkjum frá árinu 2014. Herinn lofar kosningum þegar ný stjórnarskrá hefur verið rituð en því hefur ítrekað verið frestað. Ekki er gert ráð fyrir kosningum fyrr en á næsta ári í fyrsta lagi.

Hvað vilja Rússar í Sýrlandi?

Obama segir ástandið í Sýrlandi ekki vera keppni á milli sín og Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Rússneski herinn hefur aðstoðað Sýrlandsstjórn við að ná aftur völdum í héruðum sem voru undir stjórn vígahreyfinga og uppreisnarsveita stjórnarandstæðinga. Obama segir að spurningin sem hljóti að brenna á vörum allra sé hvað Rússar haldi að þeir græði á því að eiga ríki sem er ein rjúkandi rúst sem bandamann og sé tilbúið að eyða milljörðum dala til þess að byggja upp? Hann segir að á meðan Rússar haldi áfram linnulausum loftárásum í Sýrlandi verði ekkert af boðuðu vopnahléi.