Treysti sér ekki út til að taka veðrið

16.02.2016 - 12:49
Ein á ferð fyrir utan aðalbyggingu Háskóla Íslands.
 Mynd: Háskóli Íslands
Illviðri olli miklum rafmagnstruflunum á Vestfjörðum í nótt. Bálhvasst var á Ströndum og Jón G. Guðjónsson, veðurmælingamaður í Litlu-Ávík, treysti sér ekki út til að taka veðrið klukkan níu í morgun. Hann segir að versta veðrið hafi verið milli klukkan sjö og til rúmlega hálf tíu í morgun.

Jón segir að það hafi verið ofsaveður eða fárviðri frá klukkan sjö. Rúmir þrjátíu metrar og upp í 44 metra í hviðum og hann segist ekki hafa treyst sér út til að taka veðrið klukkan níu. „Ég fór áður en veðrið skall á en ég treysti mér ekki í þessum hviðum, það eru svo rosalegar hviður í suðvestanáttinni. Hefur það gerst áður að þú farir ekki út? Já það hefur skeð áður en það er ekki oft. Það er helst í þessum suðvestanáttum eða suðlægum áttum. Hitt er miklu meiri jafnavindur í norðlægum áttum og svo verður maður alltaf að meta hvernig landslagið er. Hefurðu lent illa í því? Já það má segja það, ég skoppaði nokkrar veltur einu sinni, það eru mörg ár síðan, það var reyndar í hríðviðri, en þá komst vindur undir úlpuna sem ég var í og belgdist út og ég bara tókst á loft og valt nokkra hringi.“ 

Nokkuð var um rafmagnstruflanir í nótt og í morgun í Árneshreppi vegna veðursins. „Það fór af rétt fyrir klukkan fjögur í nótt og kom á rétt fyrir sjö en hefur staðið síðan. Það er komið allsstaðar í hreppnum núna held, ég hef ekki heyrt annað.