Tónlistarskólar fá skilyrta fjárveitingu

Innlent
 · 
Menningarefni
 · 
Menntamál
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Fiðla

Tónlistarskólar fá skilyrta fjárveitingu

Innlent
 · 
Menningarefni
 · 
Menntamál
15.01.2016 - 08:54.Anna Kristín Jónsdóttir
Borgarráð samþykkti í gær að setja hundrað og tíu milljónir, sem koma bæði frá borg og ríkinu, til tónlistarskólanna vegna kennslu á framhaldsstigi og söngkennslu á miðstigi. Aðstoðin er þó með því skilyrði að rekstrarúttekt verði gerð á tónlistarskólum í Reykjavík. Tónlistarskólar sem kenna á framhaldsstigi hafa lengi verið í rekstrarerfiðleikum þar sem þeir hafa aðeins fengið hluta kennslukostnaðarins greiddan.

 

Unnið hefur verið að lausn og í borgarráði í gær var lögð fram tillaga um lausn. Hún felur í sér að 55 milljónir króna sem koma frá ríkinu og annað eins frá borginni verði greitt til tónlistarskólanna í samræmi við fjölda þeirra sem stunda nám á framhaldsstigi auk miðstigs í söng.

Þessi tillaga var samþykkt. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að viðbótarframlagið úr borgarsjóð sé með því skilyrði að gerð verði rekstrarúttekt á tónlistarskólum í Reykjavík af óháðum fagaðila til að meta rekstrarhæfi þeirra með tilliti til skólaársins 2016-2017. Tónlistarskólar sem ekki standist kröfur um rekstrarhæfi geti ekki vænst frekari fjárstuðnings án markvissra aðgerða sem sýnt þyki að snúi þeirri stöðu við. Jákvæð niðurstaða slíkrar útektar verði ein af forsendum þess að gerðir verið samningar við tónlistarskóla vegna næsta kennsluárs.

Tengdar fréttir

Menntamál

Enn óvissa hjá tónlistarskólum