Tókust á um áherslur um Finnafjörð

16.01.2016 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæði nýr meirihluti og minnihluti í Langanesbyggð vilja halda áfram vinnu að undirbúningi stórskipahafnar í Finnafirði. Þá greinir þó á um hversu mikið sveitarstjórnin eigi að skuldbinda sig að svo stöddu.

Meirihluti og minnihluti í sveitarstjórn Langanesbyggðar tókust á um hvernig vinna ætti áfram að Finnafjarðarverkefninu á fundi sveitarstjórnar á fimmtudag, eftir að kjör oddvita og varaoddvita skýrðu línur í sveitarstjórn. Meirihluti sveitarstjórnar, skipaður Framtíðarlistanum, Nýju afli og Reyni Atla Jónssyni, lýsti vilja sínum til að halda áfram vinnu með það að markmiði að byggja upp stórskipa- og umskipunarhöfn. Meirihlutinn sagði að það myndi styrkja byggð og mannlíf á Norðausturlandi ef verkefnið yrði að veruleika.

Fulltrúar meirihlutans sögðust þó meðvitaðir um þá ábyrgð sem fylgdi því að Langanesbyggð tæki þátt í svo umfangsmiklu verkefni, það gæti leikið fjárhag sveitarfélagsins afar grátt ef illa tækist til. Þeir vísa einnig til þess að síðasti meirihluti hafi liðið undir lok þar sem þáverandi oddviti hafi undirbúið viljayfirlýsingu um þátttöku sveitarfélagsins án nægilegs samráðs við sveitarstjóra og sveitarstjórn. Því hefur nýi meirihlutinn óskað eftir viðræðum við aðra sem koma að viljayfirlýsingunni um efni hennar auk þess að upplýsa þá að fjárhagsskuldbindingar samkvæmt yfirlýsingunni verði fyrst bindandi fyrir sveitarfélagið þegar þær hafa verið samþykktar sérstaklega í sveitarstjórn.

Nýi minnihlutinn bókaði á móti að fyrrverandi oddviti hefði unnið vel að Finnafjarðarverkefninu og að viljayfirlýsingin fæli ekki í sér neinar skuldbindingar umfram þann samning sem allir hefðu undirritað í maí 2014.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða hvernig unnið skyldi að byggingu leikskóla við Grunnskóla Þórshafnar og áhersla lögð á að halda áfram hönnun og byggingu hans. Fjárhæð var lögð til hliðar fyrir áframhaldandi hönnunarvinnu á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í ár.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV