Tjón í Skaftárhlaupi ljóst í vor

06.01.2016 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Tjón á túnum bænda í Skaftárhlaupi liggur væntanlega ekki fyrir fyrr en snjóa leysir í vor. Bjargráðasjóður hefur ekki fengið nein erindi frá bændum vegna tjóns í hlaupinu, né heldur í hvellinum á Austurlandi milli jóla og nýárs. Viðlagatrygging vinnur hins vegar að því að fá yfirsýn yfir tjón á mannvirkjum.

Þegar tjón verða af völdum náttúruhamfara, meðal annars óveðurs, kemur til kasta tveggja stofnana til að meta bætur. Viðlagatrygging Íslands sér um að bæta beint tjón á tryggðum eignum af völdum náttúruhamfara. Bjargráðasjóður sér hins vegar um að bæta bændum tjón á girðingum, túnum og rafmagnslínum sem tengjast landbúnaði.

Í Skaftárhlaupi bætti Viðlagatrygging aðeins eitt mannvirki – brúna yfir Eldvatn. Tjón bænda, sem tekur til Bjargráðasjóðs, er hins vegar óljóst. Sigurgeir Hreinsson, stjórnarformaður sjóðsins, segir að ekkert erindi hafi borist sjóðnum vegna tjóns í hlaupinu og er ekki búist við að þau komi fyrr en í vor, þegar ljóst er hvernig túnin koma undan vetri. Umsóknarfrestur til sjóðsins er ár eftir að tjón hefur orðið. Ljóst er þó, eins og greint hefur verið frá, að í hlaupinu hefur orðið tjón sem heyrir ekki undir sjóðinn, til dæmis á uppgræddu landi og tjón vegna landbrots.

Öðru máli gegnir um tjónið sem varð af völdum óveðursins á Austurlandi milli jóla og nýárs. Það mun líklega vera meira á hendi Viðlagatryggingar. Starfsmenn hennar halda fundi í dag og á morgun fyrir austan til að fá yfirsýn yfir tjón af völdum veðursins. Engin staðfesting hefur borist um neitt tjón hjá bændum í því veðri annað en tjón á girðingum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í kjölfar Skaftárhlaupa að til greina kæmi að stofna sérstakan hamfarasjóð til að bæta það tjón sem ekki heyrði undir aðra sjóði. Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur einnig sagt koma til greina að bæta þetta tjón. Fréttastofa hefur upplýsingar um að verið sé að vinna í málinu en ekki er vitað hversu langt sú vinna er komin.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV