Tjón af völdum Harveys og Irmu 30 billjónir

11.09.2017 - 05:47
Homes are surrounded by floodwaters from Tropical Storm Harvey Tuesday, Aug. 29, 2017, in Spring, Texas. (AP Photo/David J. Phillip)
Flóðin í og við Houston voru slík að vestanhafs hafa menn sjaldan eða aldrei séð annað eins.  Mynd: AP Images
Tjón af völdum fellibyljanna Harveys og Irmu á bandarískri grund gæti samtals numið allt að 290 milljörðum Bandaríkjadala, um 1,5 prósenti af vergri þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna. Þetta er mat sérfræðinga einkareknu veðurstofunnar AccuWeather í Pennsylvaniu.

Stofnandi og forstjóri AccuWeather, Joel Myers, áætlar að tjónið af völdum Irmu, sem nú hamast á Flórídaskaganum, geti numið um það bil 100 milljörðum Bandaríkjadala, en tjónið af völdum Harvey, sem herjaði á Texas og hluta af Louisiana í lok ágúst er talið nema allt að 190 milljörðum Bandaríkjadala, sem er það mesta sem sögur fara af.

Við útreikningana er tekið tillit til fjölmargra þátta auk beinnar og augljósrar eyðileggingar á byggingum, samgöngumannvirkjum og öðrum innviðum. Þar má nefna töpuð viðskipti og truflun á starfsemi fyrirtækja og verslana, tímabundin aukning atvinnuleysis, uppskerubrestur, hækkun á orkuverði, hvort sem horft er til eldsneytis á bíla, flugvélar eða til húshitunar og lýsingar, tjón á persónulegum eignum almennings og verðmætum gögnum og marg fleira.

290 milljarðar Bandaríkjadala svara til ríflega 30 billjóna íslenskra króna á núgildandi gengi. Aðeins brotabrot af þessu, segir Myers, er líklegt til að fást bætt úr tryggingum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV