Tjaldbúi á Snæfellsjökli fundinn

10.03.2014 - 17:58
Mynd með færslu
Björgunarsveitarmenn af Snæfellsnesi hafa nú fundið ferðamanninn sem leitað var á við Snæfellsjökul í dag. Maðurinn var vel á sig kominn og vel búinn, en nokkuð skelkaður, vegna ofsaveðurins sem geisað hefur á Snæfellsnesi í dag. Hann var austan við jökulinn, á Jökulhálsi.

Um 40 manns úr tveimur björgunarsveitum fóru af stað til að leita mannsins, eftir að hann gerði vart við sig í gegnum síma, og sendi staðsetningu sína. Tjald mannsins var rifið og tætt vegna veðursins. Ekki er ljóst hvaðan maðurinn er, en hann var einn á ferð. Björgunarsveitarmenn fóru af stað frá þremur stöðum, á vélsleðum, jeppum og snjóbílum að leita hans, auk þess sem þeir fengu snjótroðara lánaðan frá ferðaþjónustufyrirtæki á Arnarstapa.

Á Facebooksíðu Landsbjargar má sjá myndband af björgun mannsins.