Tíu milljarða útflutningur í húfi

25.02.2016 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rúmlega tíu milljarða króna útflutningur er í uppnámi vegna gjaldeyriskreppu í Nígeríu. Tilraunir útflytjenda og stjórnvalda til að fá þarlend yfirvöld til samstarfs hafa engan árangur borið. Síðustu vikur hefur nær alveg lokast fyrir skreiðarútflutning til Nígeríu. Þarlendir innflytjendur geta ekki nálgast gjaldeyri á viðráðanlegu verði vegna gjaldeyrishafta. Þetta minnir um margt á hrunið á Íslandi, segir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Íslendingar hafa síðustu ár flutt út skreið til Nígeríu fyrir rúma tíu milljarða króna á ári. Viðskiptin þyngdust í fyrra vegna gjaldeyriskreppu í Nígeríu og síðustu vikur hefur ástandið versnað til muna. Gjaldeyrishöft gera innflytjendum erfitt fyrir um leið og gengi gjaldmiðilsins hríðfellur.

Fá ekki gjaldeyri á opinberu verði

Þetta minnir um margt kannski á október-nóvember 2008,“ segir Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Nígeríski seðlabankinn gaf út lista yfir vörur sem mætti flytja inn fyrir gjaldeyri sem keyptur er á opinbera genginu, sem er mun lægra en almennt gengi. Fiskafurðir eru ekki þar á meðal. Að auki hafa tollar fjórfaldast. Útvegsmenn hafa, í samvinnu við stjórnvöld, freistað þess að fá nígerísk yfirvöld til að útvega fiskinnflytjendum gjaldeyri en án árangurs. Einnig hafa verið ræddar hugmyndir um vöruviðskipti án þess að þær hafi nokkru skilað enn.

„Þetta er alls ekki auðvelt og lítur líka að því að gjaldmiðillinn í Nígeríu, næran, á ekki upp á pallborðið annars staðar. Íslenskur aðili sem fengi borgað í gjaldmiðli Nígeríu ætti afskaplega erfitt með að losa sig við þann gjaldeyri fyrir einhverja aðra mynt,“ segir Haukur Þór.

Rætt á vettvangi Alþjóða viðskiptastofnunarinnar

Fylgst er með málinu í atvinnuvegaráðuneytinu og utanríkisráðuneytið hefur átt í bréfaskiptum og haldið fundi með Nígeríumönnum. Að auki hefur utanríkisþjónustan tekið málið upp á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV