Tíu létust í sjálfsmorðsárás

27.02.2016 - 10:16
epa03034552 A picture made available on 15 December 2011 shows masked Pakistani Taliban militants during exercises in lawless Pakistan-Afghanistan border area of Laddah in South Wazirsitan tribal agency, Pakistan, 11 December 2011. Reports state that
Talibanar við herþjálfun á landamærum Afganistans og Pakistans.  Mynd: EPA
Að minnsta kosti tíu eru látnir og yfir fjörutíu slasaðir eftir sjálfsmorðsárás í Kunar-héraði í austurhluta Afganistan í morgun.

Árásarmaðurinn keyrði á bifhjóli inn á markað í Asadabad, höfuðborg héraðsins, og sprengdi sig í loft upp. Engin hryðjuverkasamtök hafa lýst verknaðinum á hendur sér en líklegt þykir að talíbanar beri ábyrgð á árásinni. Síðastliðin fjórtán ár, eða frá því Bandaríkjaher réðst inn í Afganistan, hafa talíbanar stundað sjálfsmorðsárásir í norðurhluta landsins. 

Í síðustu viku tóku fulltrúar frá Afganistan, Kína, Bandaríkjunum og Pakistan upp þráðinn í friðarviðræðum í við talíbana. Þær viðræður voru settar á ís þegar tilkynnt var fráfall leiðtoga talíbana, Múlla Ómar, síðasta sumar. Viðræðurnar eiga að halda áfram í næstu viku en óvíst er hvort nokkuð verði af þeim.

Vígamenn talíbana hafa sótt hart fram í vetur um gervallt Afganistan, en fjórtán ár eru síðan Bandaríkjaher og NATÓ ráku talíbana frá völdum í landinu.

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV