Tilskipanir um byssueign kynntar á næstu dögum

04.01.2016 - 22:12
epa05087952 US President Barack Obama (C) delivers brief remarks to members of the news media following a meeting on executive actions he can take to curb gun violence, with US Attorney General Loretta Lynch (L) and FBI Director James Comey (R) and other
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á fundi í Hvíta húsinu í kvöld með Lorettu Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og James Comey, yfirmanni bandarísku alríkislögreglunnar, FBI. Mynd: EPA.  Mynd: EPA  -  EPA
Barack Obama Bandaríkjaforseti boðaði í kvöld hert eftirlit með byssueign vestanhafs. Á næstu dögum ætlar hann að kynna forsetatilskipanir þess efnis.

Obama átti í kvöld fund með Lorettu Lynch dómsmálaráðherra í Hvíta húsinu. Fyrir áramót fól hann henni, yfirmanni alríkislögreglunnar, FBI, og fulltrúum forsetaembættisins að gera tillögur um hvernig haga mætti forsetatilskipunum, sem ekki eru háðar samþykki Bandaríkjaþings, um byssueign og eftirlit með henni.

Lynch kynnti forsetanum tillögurnar á fundinum í kvöld. Obama sagði að þær tryggðu betur að þeir sem væru hættulegir sjálfum sér eða öðrum, gætu síður komist yfir skotvopn. Obama lagði áherslu á að tilskipanirnir dygðu ekki til að koma í veg fyrir alla glæpi þar sem skotvopnum væri beitt og kæmu ekki í veg fyrir að glæpamenn yrðu sér út um þau, en þær myndu mögulega bjarga mannslífum í Bandaríkjunum.

Tillögurnar voru ekki kynntar formlega á fundinum í kvöld en það ætlar forsetinn að gera á næstu dögum, þar á meðal á opnum fundi í Virginíuríki á fimmtudaginn en hann verður sendur út beint á CNN fréttastöðinni. Þá verða áformin eitt helsta umræðuefnið í síðustu stefnuræðu forsetans á þriðjudaginn eftir viku.

Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV