Tillögur NV-nefndarinnar bíða útfærslu

05.01.2016 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Útfærsla á tillögum Norðvesturnefndarinnar, sem samþykktar voru í ríkisstjórn í desember, eru í höndum einstakra ráðuneyta. Formaður nefndarinnar segir störfum hennar lokið. Ekki hefur enn verið haft samband við þau fyrirtæki eða stofnanir sem fengu úthlutað fjármunum.

18. desember síðastliðin samþykkti ríkisstjórnin fjórtán tillögur sem fela í sér styrkingu á innviðum, atvinnulífi og samfélagi á norðvesturlandi og byggja á tillögum Norðvesturnefndarinnar. Stefán Vagn Stefánsson formaður nefndarinnar segir að þrátt fyrir að aðeins hluti af tillögum nefndarinnar hafi náði í gegn sé starfi hennar lokið. Hann gerir ekki ráð fyrir að nefndin beiti sér sérstaklega fyrir fleiri verkefnum en segir að nefndarmenn muni fylgjast náið með því að þau verkefni sem voru samþykkt verði að veruleika.

„Nú lítum við þannig á að verkefni sé í höndunum á ráðuneytunum og þá væntanlega forstöðumönnum þessara stofnanna sem fengu þessa fjármuni.“

Forsvarsmenn þeirra stofnanna og fyrirtækja á Norðvesturlandi sem fengu úthlutað fjármunum í tillögum ríkisstjórnarinnar og fréttastofa hafði samband við höfðu aðeins haft fregnir af fjárveitingunni í gegnum fjölmiðla.

Ingileif Oddsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra segist eiga von á því að heyra frá Menntamálaráðuneytinu fljótlega. Skólinn fékk úthlutað 15 miljónum króna til að efla menntun á sviði matvælavinnslu og sláturiðnar. Í upphaflegum tillögum Norðvesturnefndarinnar var gert ráð fyrir að skólinn fengi 30 miljón króna framlag og við það myndu verða til fimm stöðugildi við skólann.

Þetta eru svona tæplega tvö stöðugildi sem verða til með þessu,“ segir Ingileif.

Hún segir að þetta dugi til þess að skólinn geti sett af stað nám í slátraraiðn.

„Okkar staða hefur nú einkennst af því síðustu tvö ár að við erum í raun með of marga nemendur miðað við það sem við fáum greitt fyrir en við höfum verið að þróa nýjar námsbrautir og ég nefni þar kannski plastiðnir og plastbátasmíði og svo matvælanám og þá sérstaklega slátrarariðn. Við erum núna með nemendur sem bíða eftir þessum námsbrautum en þar sem að við erum með of marga nemendur höfum við ekki getað sett þetta af stað en þetta framlag verður þá til þess að við getum allavegana sett slátraraiðnina af stað"

Ingileif segist gera ráð fyrir að hægt verði að fara af stað með námið strax á þessari önn.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV