Tillerson ræðir Katardeiluna í Sádi-Arabíu

12.07.2017 - 10:46
epa06082265 A handout photo made available on 11 July 2017 by the US Department of State shows US Secretary of State Rex Tillerson (L) and the Qatari Minister of Foreign Affairs Sheikh Mohammed bin Abdulrahman Al Thani (R) sign a memorandum of
Rex Tillerson ásamt Sheikh Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, utanríkisráðherra Katar, í Doha í gær.  Mynd: EPA  -  US DEPARTMENT OF STATE
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er kominn til Sádi-Arabíu þar sem hann ætlar að ræða við starfsbræður frá fjórum ríkjum um deilu þeirra við Katar. Búist er við að Tillerson ræði einnig við Salman, konung Sádi-Arabíu. 

Þetta er þriðji dagurinn í för Tillersons um Austurlönd nær vegna deilu Katar og grannríkja sem saka ráðamenn í Doha um að styðja og fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Deilan blossaði upp fyrir fimm vikum þegar ríkin slitu öllum samskiptum við Katar. 

Tillerson hefur í för  sinni rætt við ráðamenn í Kúveit sem reynt hafa að miðla málum og kom við í Katar í gær. Þar var gefin út yfirlýsing um samvinnu Bandaríkjanna og Katar í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og fjármögnun á slíkri starfsemi. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Barein og Egyptalandi, segja þá yfirlýsingu ófullnægjandi.

Áður en deilan blossaði upp treysti Katar að miklu leyti á á neysluvörur frá grannríkjum. Brugðist hefur verið við skorti með ýmsum hætti og Katar fengið aðstoð frá Tyrkjum sem sent hafa flutningaskip og nærri 200 flugvélar með matvæli.

Þá var í gær flogið með 165 kýr af Holstein-kyni frá Þýskalandi til Katar í þeim tilgangi að bregðast við mjólkurskorti vegna viðskiptabannsins. Fyrirtæki Power International í Katar stendur að flutningunum, en stjórnarformaður þess sagðist í síðasta mánuði ætla að flytja 4.000 kýr til Katar. Mjólkin frá þeim ætti að fullnægja þörfum um 30 prósenta landsmanna.