Tillaga um nýtt nafn Samfylkingar komin fram

18.08.2017 - 15:32
Mynd með færslu
Frá síðasta landsfundi Samfylkingarinnar.  Mynd: Kristinn Magnússon
Hópur flokksmanna innan Samfylkingarinnar hefur boðað tillögu fyrir landsfund flokksins þar sem lagt er til að nafni Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands verði einfaldlega breytt í Jafnaðarmenn. Meðal þeirra sem standa að tillögunni er Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður flokksins.

Auður Alfa Ólafsdóttir, sem skipaði fjórða sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir síðustu þingkosningar, er einnig í hópi þeirra sem stendur að tillögunni. „Okkur finnst að það þurfi að breyta nafninu á flokknum. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Þetta er ekkert fyrst að koma fram núna og hefur verið rætt áður. Samfylkingar-nafnið lýsir gömlum tíma sem er ekki til staðar í dag og tengist heldur ekki því sem flokkurinn stendur fyrir í dag.“  

Hún segir að ekki hafi verið hugsað nægilega langt fram í tímann þegar nafnið var valið á sínum tíma. „Við viljum að nafnið endurspegli það sem flokkurinn stendur fyrir, sem er jafnaðarmennska.“  

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði við fréttastofu í gær að fyrir landsfundi hafi allir félagsmenn tækifæri til að koma með tillögur að lagabreytingu. Hún sé nauðsynleg til að breyta nafninu. 

Fréttastofa greindi frá því að nokkrir flokksmenn Samfylkingarinnar hefðu sent forystu flokksins tillögu um að nafni flokksins yrði breytt. Málið komst í hámæli þegar Eva H. Baldursdóttir, varaborgarfulltrúi og formaður Félags frjálslyndra jafnaðarmanna, setti inn færslu á Facebook þar sem hún sagði til umræðu innan flokksins að breyta nafninu. Viðbrögð við þeirri hugmynd létu ekki á sér standa og sitt sýndist hverjum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi hugmynd hefur verið rædd, að breyta nafni Samfylkingarinnar. Ágúst Ólafur Ágústsson fyrrverandi varaformaður flokksins viðraði til að mynda þá skoðun í fyrra að flokkurinn ætti einungis að heita Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV