Tilkynntum kynferðisbrotum fækkar

lögreglumaður á bílastæðinu við lögreglustöðina við Hverfisgötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Tilkynnt kynferðisbrot hafa ekki verið færri í einum mánuði á höfuðborgarsvæðinu frá því í febrúar árið 2014, samkvæmt afbrotatölfræði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir desembermánuð.

Tilkynnt var um 292 þjófnaði í desember, nokkuð færri en í mánuðinum á undan. Tilkynningum um innbrot og farsímaþjófnaði fjölgaði en fækkun var í tilkynningum um annars konar þjófnað. 89 innbrot voru tilkynnt í desember, það gera um þrjár tilkynningar á dag. Innbrotum fjölgaði um 18 prósent í fyrra samanborið við sama meðaltal síðustu þriggja ára.

Fleiri ofbeldisbrot voru tilkynnt til lögreglu í desember en í mánuðinum á undan, alls 102 tilkynningar, ellefu fleiri en í nóvember. Þetta eru fleiri brot en að meðaltali síðustu þrjá mánuði á undan og síðustu tólf mánuði. Lögreglan segir fjölgunina meðal annars skýrast af breyttu verklagi í heimilisofbeldismálum.

Átta tilvik voru skráð í desember þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi og er það töluverð fjölgun miðað við síðustu fimm mánuði á undan.

Tilkynnt var um níu kynferðisbrot sem áttu sér stað í desember, einu færra en í nóvember. Að sögn lögreglu hefur tilkynntum kynferðisbrotum stöðugt fækkað á höfuðborgarsvæðinu frá því í júlí, þegar 23 brot voru tilkynnt. Ekki hafi borist eins fáar tilkynningar í einum mánuði frá því í febrúar 2014. Tilkynnt kynferðisbrot voru um 19 prósentum færri í fyrra samanborið við meðalfjölda árin 2012 til 2014.

Tilkynningum um eignaspjöll fjölgaði milli mánaða, úr 97 í nóvember í 109 í desember. Meiriháttar eignaspjöllum fækkar hinsvegar milli mánaða. 26 tilkynningar voru skráða um nytjastuld á vélknúnum farartækjum í desember, átta fleiri en í nóvember. 

Fjöldi skráðra fíkniefnabrota í desember var álíka og mánuðina tvo á undan, eða 74. Mesta fækkunin varð milli september og október, þegar skráðum fíkniefnabrotum fækkaði úr 108 í 72.

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir desembermánuð 2015 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar...

Posted by Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu on 21. janúar 2016

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV