Tilkynningar um sjóslys 32% fleiri

18.01.2016 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjóslysasvið Rannsóknarnefndar samgönguslysa fékk 129 mál til sín árið 2015. Þetta er fjölgun um 32% frá árinu áður en engu að síður 17% undir meðaltali síðustu tíu ára. Þetta kemur fram í yfirliti nefndarinnar yfir árið 2015.

Í yfirlitinu kemur fram að 131 lokaskýrsla hafi verið afgreidd frá sjóslysasviði rannsóknarnefndarinnar. Eftir voru 45 mál frá árinu 2015, og 3 mál frá 2014 sem höfðu dregist.

Fjölgun tilkynninga nú helgast mest af því að þær voru óvenju fáar árið 2014. Tilkynningarnar voru 129 á síðast ári, 98 árið 2014 en 170 árið 2013. 

Sex skip sukku á síðast ári, jafnmörg og árið 2013, en árið 2014 sökk aðeins eitt skip. Eitt banaslys varð á sjó árið 2015. Þá hvolfdi dragnótarskipi við veiðar á Vestfjarðarmiðum. Rannsókn á því máli er ekki lokið. Þá voru átta atvik skráð þegar skip strönduðu eða tóku niðri, en slík atvik voru 11 bæði árið 2014 og 2013.

Þá kemur fram að enn er talsvert af atvikum þegar skip voru dregin til hafnar vélarvana af ýmsum ástæðum og voru þau á árinu 42 miðað við 30 allt árið 2014. Skýringin á þessu er helst að finna vegna ýmissa vandræða hjá strandveiðibátum. Á árinu voru skráð 20 mál vegna þeirra en voru 10 á árinu 2014. Rannsóknanefndin hefur fylgst náið með þessum atvikum og mun gera það áfram vegna þess lærdóms sem af þeim má draga. 

51 slasaðist um borð í skipum á síðasta ári. Langflest slysin urðu um borð við veiðar, eða 31. Algengustu slysin voru fallslys af ýmsum toga. Önnur algeng slys voru þegar menn urðu á milli og flemmdust við löndum, landfestar, sjóbúnað o.s.frv. Undirmenn á skipum eru í miklum meirihluta þeirra sem slasast, eða um 70%. 31 af 51 sem slösuðust voru hásetar.

Fram kemur í yfirlitinu að tilkynntum slysum hafi fækkað umtalsvert það sem af er þessari öld. Til að mynda voru 423 slys skráð hjá Sjúkratryggingum Íslands árið 2007, en árið 2015 voru þau 219. 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV