Tilfinningatjón þegar skrautdúfur brunnu inni

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
„Maður er varla búinn að ná áttum,“ segir Jón Magnús Guðmundsson, skrautdúfubóndi, sem missti nærri 200 skrautdúfur í miklum eldsvoða í nótt. Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga 14 dúfum úr eldinum. Fjórir slökkviliðsbílar frá þremur stöðvum voru notaðir til að slökkva eldinn en slökkviliðsmenn voru að í nærri þrjár klukkustundir.

 „Ég fór þarna í nótt og hún var ansi ljót aðkoman,“  segir Jón Magnús Guðmundsson sem hefur verið með skrautdúfur í Kapelluhrauni í nærri aldarfjórðung.  Hann varð fyrir miklu áfalli þegar nærri allar dúfurnar hans brunnu inni í eldsvoða í nótt. 

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning frá vegfarenda á Reykjanesbrautinni um 3:20 í nótt sem sagðist sjá reyk eða gufu.

Slökkviliðið sendi fyrst einn bíl á staðinn. Síðar kom í ljós að eldurinn var mun meiri en menn höfðu gert ráð fyrir og var því óskað eftir aðstoð frá öðrum stöðvum. Fjórir bílar frá þremur stöðvum voru að störfum til klukkan sex í morgun. Þar sem aðgengi að vatni var ekki gott þurfti slökkviliðið að senda auka-vatnsbíl. Ekkert er vitað um eldsupptök en húsið er ónýtt.

Jón Magnús segir þetta mikið tilfinningatjón fyrir sig enda hafi hann verið að rækta dúfur. Hann segist hafa fengið að vera í friði með dúfurnar þarna þótt það hafi komið einhver áföll.  Jón segist vera bræða það með sér hvort hann haldi áfram að rækta skrautdúfur - hann á þó frekar von á því. „En maður er varla búinn að ná áttum.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV