Tilbúinn til að flýta kosningum

02.03.2016 - 23:10
epa04127893 President of Serbia Tomislav Nikolic gives a statement to the media after casting his ballot in Belgrade, Serbia, 16 March 2014. Voting began in Serbian snap elections that are expected to produce an unprecedented win for the ruling
Tomislav Nikolic, forseti Serbíu.  Mynd: EPA
Tomislav Nikolic, forseti Serbíu, kvaðst í dag mundu rjúfa þing og boða til kosninga um leið og beiðni þess efnis bærist frá ríkisstjórn landsins. Aleksandar Vucic, forsætisráðherra Serbíu, lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali í gærkvöld að hann vildi að þingkosningum yrði flýtt.

Vucic sagðist vilja að efnt yrði samhliða til héraðs- og sveitarstjórnarkosninga og kvaðst telja 24. apríl heppilegustu dagsetninguna. Hann ætlaði að ræða málið við Nikolic forseta innan tveggja sólarhringa.

Vuicic sagði mikilvægt að móta skýra stefnu og aðlaga Serbíu að evrópskum gildum og markmiðum á næstu fjórum árum. Kosningarnar yrðu í raun atkvæðagreiðsla um hvort Serbar ætluðu að lifa í fortíðinni eða horfa til framtíðar. 

Þingkosningar voru síðast í Serbíu í mars 2014 og er kjörtímabilið fjögur ár. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV