Þýskur leiðtogi fær rússneska kosningu

20.03.2017 - 17:32
Martin Schulz, nýkjörinn leiðtogi Þýska jafnaðarmannaflokksins, fagnar á aukaflokksþingi í Berlín, 20. mars 2017
Martin Schulz, nýkjörinn leiðtogi Þýska jafnaðarmannaflokksins, fagnar á aukaflokksþingi í Berlín, 20. mars 2017  Mynd: AP
Martin Schulz, fyrrum forseti Evrópuþingsins fékk einróma stuðning sem leiðtogi Þýska jafnaðarmannaflokksins (SPD) á aukaþingi sem haldið var um helgina í Berlín. Allir 605 fulltrúar á þinginu greiddu honum atkvæði; nokkuð sem ekki hefur gerst frá stríðslokum. Í janúar var Schulz valinn sem kanslaraefni flokksins í kosningunum sem haldnar verða í haust. SPD er nú með kringum 32% fylgi, sem er álíka og fylgi kristilegra demókrata, flokks Angelu Merkel kanslara Þýskalands.

Schulz var forseti Evrópuþingsins frá 2012, en sagði af sér þingmennsku síðasta vetur til að geta snúið sér að stjórnmálum í heimalandinu. Í janúar var hann valinn sem kanslaraefni SPD í þingkosningunum sem haldnar verða 24. september. Schulz tekur þannig við af Sigmari Gabriel, sem leitt hefur þýska jafnaðarmenn frá 2009. 

Jafnaðarmenn eru nú í ríkisstjórn með Kristilegum demókrötum en vonast til að hreppa kanslaraembættið sem Angela Merkel hefur gegnt í þrjú kjörtímabil. Fylgi flokksins hefur rokið upp síðustu vikur og mánuði. Í janúar mældist hann með ríflega 20 prósent fylgi í skoðanakönnum, en er nú með nánast sama fylgi og kristilegir demókratar. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV