Þýskaland logar

18.01.2016 - 13:14
Það sem gerðist um áramótin í Köln – og reyndar fleiri borgum Þýskalands – hefur haft, og á eftir að hafa, miklar afleiðingar. Það sem gerðist var í stórum dráttum að um það bil eitt þúsund ungir menn af norður-afrískum og miðausturlenskum uppruna fóru í hópum um miðborg Kölnar um áramótin og réðust á konur.

Þar var mikill mannfjöldi að venju að fagna áramótum. Þeir skutu flugeldum lárétt inn í mannþröngina og í óreiðunni sem myndaðist tóku hópar þeirra einstakar og varnarlausar konur og beittu kynferðislegu ofbeldi.

 

Viku eftir nýársnótt birtist grein í Der Spiegel, sem er talið áhrifamesta tímaritið á meginlandi Evrópu, þar sem var farið yfir atburðarásina, mjög nákvæmlega  – og í framhaldinu er því lýst hvernig viðbrögð hafa verið í Þýskalandi. Greinin er skrifuð af ritstjórninni. Hér á eftir fer endursögn á því helsta úr þessari grein, sem er löng og ítarleg. Hlekkur verður settur á hana á heimasíðu Mannlega þáttarins á ruv.is fyrir þá sem vilja lesa hana í heild. Hún hefst á því að lýsa hvernig gamlárskvöld hafi orðið að stjórnlausri óreiðu í miðborg Kölnar þar sem þjófnaður, nauðganir og kynferðislegt áreiti áttu sér stað og múgæsing ríkti. Útlenskir menn af norður-afrískum uppruna áttu upptökin og sköpuðu stjórnleysið. Af þessu tilefni hefur sprottið hávær, beisk og hatursfull umræða, sem snýst um innflytjendur og flóttamenn í Þýskalandi.

 

Það sem stuðningsmenn flóttafólks, jafnt sem útlendingahatarar óttuðust mest  – gerðist. Fyrir sumum eru þessi atburðir sönnun þess, sem þeir hafa haldið fram, að of margir útlendingar í landinu skapi of mörg vandamál. Aðrir óttast að sá jákvæði andi, sem hefur almennt ríkt í Þýskalandi til þessa í garð flóttamanna, breytist vegna innflytjenda, sem standa fyrir skrílslátum og afbrotum. Þrátt fyrir að staðreyndir og málsatvik áramótanna í Köln séu ekki að öllu leyti kunn, þá er ljóst að þau senda mjög skýr skilboð, segir Der Spiegel;  – „Það er harðæri framundan”. Og í framhaldinu verður að spyrja tveggja spurninga segir ritstjórnin;  Eru þjóðverjar vissir um að þeir geti ráðið við flóttamannastrauminn?  –  Og;  Hafa þjóðverjar hug á því að verða sú Evrópuþjóð sem tekur á móti flestum innflytjendum?

 

Fyrsta vika ársins var hávær og illskeytt. Skapofsi geysaði og hystería stormaði um netið og fjölmiðla. Eins og vill verða þegar vondir hlutir gerast, barnamorð, eða hvaða glæpur sem er, sem vekur okkar dýpsta ótta og veldur hræðslu og kvíða. Um áramótin í Köln voru það drukknir ungir menn, unglingar frá Norður-Afríku sem fóru í hópum og réðust á varnarlausa einstaklinga. Þeir niðurlægðu og rændu. Þeir beittu stúlkur og konur kynferðislegu ofbeldi. Þeir sýndu fádæma bleyðuskap og vanvirðingu með því að niðurlægja þær og níðast á þeim með þeim hætti. Þýskaland logar í kjölfarið. Hegðun þeirra, og umræðan um hegðun þeirra í framhaldinu, hvort sem er í stjórnarráðinu í Berlín, í fjölmiðlum eða á internetinu, gæti auðveldlega valdið grundvallarbreytingu á stefnu Þjóðverja í málefnum flóttamanna og innflytjenda. Sá þrýstingur, sem hefur skapast, eftir að myndir og frásagnir bárust frá Köln, gerir það að verkum að það verður ekki hægt að halda áfram eins og áður. Jafnvel þótt komi í ljós að enginn þeirra flóttamanna, sem komu til landsins í fyrra, hafi verið meðal brotamanna um áramótin í Köln. Flóttamenn, hælisleitendur, útlendingar, farandverkamenn, vinir og óvinir, nýbúar sem og gamlir innflytjendur, það skiptir ekki máli segir Der Spiegel, – Það lítur út fyrir að tíminn sé kominn fyrir víðtæka umræðu um framtíð Þjóðverja.

 

Blaðið segir að atburðirnir í Köln marki þáttaskil, vegna þess að þeir ollu almennum óhug,  – og þá sérstaklega vegna aðgerðarleysi stjórnvaldsins. Atburðirnir urðu að tákni fyrir getuleysi valdsins gagnvart óreiðu og glæpum. Blaðið gefur ekki mikið fyrir þær skýringar lögreglu og borgaryfirvalda í Köln að atburðirnir um áramótin hafi verið algerlega ný tegund af ofbeldi. Staðreyndin sé einfaldlega sú að lögreglan var óviðbúin og réði ekki við ástandið sem skapaðist. Viðbrögð stjórnmálamanna hafa að mörgu leyti valdið vonbrigðum. Í stað þess að koma með einhverja sýn á hvernig stjórnvöld á landsvísu og í héraði gætu hugsanlega samlagað hundruð þúsunda útlendinga þýsku samfélagi,  – eða hvernig ríkisvaldið geti fjármagnað og skipulagt hið nýja innflytjendasamfélag. Margir leiðtogar létu sér hins vegar nægja að endurtaka gamlar lummur um tafarlausa rannsókn, harðar refsingar og svo framvegis. Kanslarinn hefur slegist í hóp þeirra sem sífrar gamlar möntrur. Hann hefur hins vegar ekki haft mikið meira að segja en að endurtaka sitt gamla slagorð; „við getum það”. Það dugir ekki lengur, segir Der Spiegel.

 

Áramótin í Köln snúast um svo margt. Þau snúast um allt það sem hægri lýðskrumsflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland, – Alternative für Deutschland – og samtök gegn íslamsvæðingu Evrópu sem kallast Pagida – hafa haldið á lofti undanfarna mánuði. Þau snúast um stefnu kanslarans í innflytjendamálum. Þau snúast um ofbeldi gegn konum, um samlögun útlendinga að samfélaginu, þau snúast um hættuna á djúpstæðum ágreiningu og hættuna á mikilli hægri sveiflu. Þau snúast líka um verklag lögreglunnar og þá staðreynd að stjórnvöld ráða ekki við vandann sem er kominn upp.

 

Samt sem áður er enn ekki fyllilega ljóst hvað gerðist um áramótin í Köln, segir Der Spiegel. Síðan er atburðarásin rekin nokkuð ítarlega í greininni, sem er of langt mál til að fara með hér. Sérstaka athygli vekur að rétt fyrir klukkan níu að morgni nýjársdags, gaf lögreglan í Köln út þá tilkynningu að hátíðahöld vegna áramótanna hafi að stærstum hluta verið friðsamleg. Það liðu fjórir dagar áður en lögreglan skýrði frá þeim atburðum sem gerðust síðastliðin áramót í miðborg Kölnar. Þessi afleita frammistaða lögreglunnar hefur orðið til að skaða trúverðugleika hennar. En ekki síður hefur hún orðið vatn á myllu þeirra samsæriskenningasmiða, sem halda því fram að lögreglan hafi verið þvinguð til að hagræða sannleikanum.

 

Þjóðverjar vissu ekki lengi vel hvað hafði átt sér stað, því það voru ekki sagðar neinar fréttir. Það fyrsta sem birtist um ástandið var stöðuuppfærsla í Facebook-hópi sem heitir Nett-Werk Köln. Það var klukkan eitt eftir miðnætti á nýjársnótt. Þar var sagt að hræðilegt ástand væri í miðborginni, kynferðislegar árásir, grátandi konur. Sá sem skrifaði stöðuuppfærsluna hafði verið þarna á ferð ásamt kærustu sinni, en það kom ekki í veg fyrir hún yrði fyrir stanslausu áreiti og grófu káfi. Það segir sína sögu að þessi stöðuuppfærsla var þurrkuð út nánast samstundis af umsjónarmanni síðunnar, sem þóttist viss að þetta væri bull og vitleysa. En einhverjir náðu hins vegar að deila stöðuuppfærslunni víðs vegar um netið og það sést að nýnasistar og hægri öfgamenn fóru þar fremstir. Tónninn á Facebook-síðunni snarbreyttist, varð grófari. Svo grófur að umsjónarmaður Nett-Werk Köln skrifaði langa stöðuuppfærslu þar sem hann reyndi að fjarlægja sjálfan sig frá þeim skoðunum sem voru settar fram á síðunni vegna skrílslátanna og segir að síðan sé orðin að vettvangi umræðuofbeldis, vígvöllur haturs og reiði.

 

Facebook-síða ríkisútvarpsins ZDF hefur líka verið undirlögð vegna hatursumræðunnar. Þar eru mjög áberandi ásakanir um lygasamsæri fjölmiðla og stjórnvalda. Der Spiegel segir að vissulega hafi ríkisútvarpið brugðist í fréttaflutningi vegna atburðanna. Í fréttum klukkan sjö að kvöldi nýársdags, næstum sólarhring síðar, minntist ZDF ekki einu orði á atburði gamlárskvölds og áramótanna. Stofnunin hefur nú beðist afsökunar á þessu dómgreindarleysi eins og það var orðað, en það hefur lítið gert til að lægja óánægjuölduna. Reyndar hafa allir fjölmiðlar í Þýskalandi legið undir því háværa ámæli að þeim sé stjórnað á laun af skuggalegu valdi sem þvingi þá til að segja ekki vondar fréttir af útlendingum, til að spilla ekki þeirri stefnu stjórnvalda að taka vel á móti flóttafólki. Nýleg könnun leiddi í ljós að fjörutíu og eitt prósent Þjóðverja eru þeirrar skoðunar að gagnrýnisraddir vegna flóttamannavandans hafi verið kæfðar. Á hægri vængnum er sú skoðun orðin að vissu.

 

Der Spiegel leitaði til félagsfræðings sem heitir Wilhelms Heitmeyer. Hann veitir stofnun við háskólann í Bielefeld forstöðu, sem rannsakar átök og ofbeldi. Heitmeyer segir að þarna hafi ekki skipuleg glæpasamtök verið að verki eins og dómsmálaráðherrann, Heiko Maas hefur haldið fram. Þau starfi ekki með svo tilviljanakenndum hætti á almannafæri.  Hins vegar hafi hóparnir í Köln sennilegast skipulagt sig með sama eða svipuðum hætti og fótboltabullur. Það er að segja með smáskilaboðum og eftir samskiptamiðlum á netinu. Heitmeyer varar við að tala eingöngu um kynferðislegar árásir, því það lýsir ekki því nægilega sem gerðist og dregur úr sýn á heildarmyndina. Þetta snýst um ofbeldi, segir hann og ofbeldi er birtingarmynd valds. Í þessu tilfelli var ofbeldinu beitt gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna.

 

Í Köln hefur þrifist glæpasamfélag ungra manna sem stundar vasaþjófnað og hefur verið til leiðinda í mörg ár. Meira en ellefu þúsund manns hafa verið rændir í miðborginni undanfarin þrjú ár. Allir sökudólgar sem hafa fundist eru unglingar, strákar sem eiga í langflestum tilvikum uppruna sinn í Norður-Afríku. Þjófarnir eru á aldrinum sextán til tuttugu og fimm ára og það eru alltaf tuttugu eða fleiri að störfum ,ef svo má að orði komast, á hverjum degi í miðborg Kölnar. Fleiri um kvöld og helgar. Sakfelling er ekki algeng, og refsingin ekki hörð, oftast nær eru hún í formi sektar. Sem hefur ekki verið svo þung að hún hafi virkað fælandi á þjófana.

 

Allt hefur nú breyst. Nú þegar glæpamennirnir ungu hafa tekið upp háttsemi, sem er miklu alvarlegri og hættulegri en vasaþjófnaður. Kynferðislegt ofbeldi á almannafæri átti sér stað í mörgum borgum samtímis um áramótin, eins og stjórnað af ósýnilegri hendi, segir í grein Der Spiegel. Það voru ekki bara konur í Köln sem urðu fyrir barðinu á ofbeldinu. Hið sama gerðist líka í Hamborg í hinu alræmda Grosse Freiheit hverfi, sömuleiðis í Stuttgart, Frankfurt am Main og eflaust fleiri borgum, þótt það hafi verið á mikið smærri skala en í Köln. Ekki varð það heldur til að draga úr spennunni þegar það fréttist að yfirvöld í Köln hefðu fundið nokkra snjallsíma sem hafði verið stolið um áramótin, í búðum flóttamanna og í næsta nágrenni við þær. Margir segja að atburðirnir í Köln séu aðeins hluti af þróun sem hefur átt sér stað undanfarið ár. Unglingagengi frá Norður-Afríku séu óðum að skipuleggja glæpastarfsemi eins og vasaþjófnað, dópsölu og vændi. Gengin verði sífellt meira ógnandi við heimamenn sem og túrista í miðborgum Þýskalands. Þau sýna yfirvöldum virðingarleysi og virðast óttalaus gagnvart þeim.

 

Undir lok greinarinnar í Der Spiegel er spurt; hvað er til ráða? Blaðið svarar spurningunni sjálft og segir að tilraun til algers heiðarleika væri góður upphafspunktur. Þjóðverjar eru ekki börn sem þarf að vernda fyrir sannleikanum af góðsemis sökum. Partur af þeim sannleika er sú staðreynd að þótt stjórnmálamenn tali fjálglega um samlögun við þýskt samfélag þá er ekkert sem bendir til þess að þeir geri sér grein fyrir hinum risavaxna vanda sem blasir við. Annar hluti af sannleikanum er sá að þýskt samfélag er óðum að sundrast.

 

 

 

 

 

 

 

Mynd með færslu
Magnús Ragnar Einarsson
dagskrárgerðarmaður
Mannlegi þátturinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi