Þyrfti að endurnýja allan sjúkrabílaflotann

15.09.2017 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna segir að helst þyrfti að endurnýja allan sjúkrabílaflota landsins. Ömurlegt sé hversu litlum fjármunum sé varið til sjúkraflutninga. Hann telur að brýn þörf sé fyrir sjúkrabíl á Ólafsfirði.

Landssambandið sendi í gær frá sér ályktun þar sem áhyggjum er lýst af hægri endurnýjun sjúkrabílaflotans. Áður vakti sjúkraflutningamaður í Vík í Mýrdal athygli á því að bilaður sjúkrabíll setti sjúkraflutninga á svæðinu í uppnám.

Gott að fá 15-20 nýja bíla

Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir stöðuna alvarlega og brýnt sé að kaupa bíla sem fyrst. „Það þyrfti náttúrulega nánast að endurnýja flotann eins og hann leggur sig, að stærstum hluta, en það verður ekki gert í einni lotu. Það væri voðalega gaman að sjá kannski 15-20 bíla koma,“ segir Stefán. 

Málaflokkurinn hornreka í kerfinu

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að veita 2,4 milljarða til sjúkraflutninga á næsta ári og hækkar upphæðin um eitt prósent frá síðustu fjárlögum. Til samanburðar hækka framlög til sjúkrahúsþjónustu um sex prósent frá fyrra ári. „Mér finnst það bara ömurlegt, satt að segja. Þetta er málaflokkur sem hefur verið hornreka í kerfinu, þessi utan spítala þjónusta og það virðist bara ekki vera skilningur hjá þeim sem ráða yfir fjármagninu að þarna þarf að koma inn miklu meira fé en hefur verið veitt fram að þessu,“ segir Stefán.

Þörf fyrir sjúkrabíl á Ólafsfirði

Enginn sjúkrabíll hefur verið á Ólafsfirði síðan í sumar, en sjúkraflutningum er nú sinnt frá Siglufirði og Dalvík. Íbúi sagðist á dögunum hafa beðið í klukkutíma eftir sjúkrabíl þegar hún hringdi vegna föður síns sem er bakveikur. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands sagði í fréttum í gær að ekki væri þörf fyrir bíl á Ólafsfirði, biðtíminn sé ekki langur í neyðartilfellum. Stefán er ósammála þessu. 

„Hvernig ætla þeir að dekka þessa þjónustu til dæmis í vetur? Það eru snjófljóðahættur þarna víða og ætla þeir að treysta á björgunarsveitir, með fullri virðingu fyrir þeim þá eru þær bara ekki með starfsleyfi til að reka sjúkraflutninga. Og ég ætla nú bara að fá skýringar hjá stjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á þessu,“ segir Stefán.