Þurrkar ógna 3 milljónum í Simbabve

10.02.2016 - 05:38
Erlent · Hamfarir · Afríka
epa05105551 A picture made available on 16 January 2016 of a cattle farmer trying to villager help his cow stand after it lost all its energy due to the ongoing drought in the Chisumbanje area, about 500 km east of the capital Harare, Zimbabwe, 15 January
 Mynd: EPA
Stjórnvöld í Simbabve hafa kallað eftir alþjóðlegri fjárhagsaðstoð vegna mikilla og langvarandi þurrka í landinu og afleiðinga þeirra. Varaforseti landsins, Emmerson Mnangagwa segir þörf á minnst hálfum öðrum milljarði bandaríkjadala, um 190 milljörðum króna, til að fjármagna lífsnauðsynlegar hjálparaðgerðir það sem eftir lifir árs. Allt að þrjár milljónir Simbabve-manna, nær þriðjungur þjóðarinnar, eru í brýnni þörf fyrir drykkjarvatn og matvælaaðstoð.

Mnangagwa segir blasa við að líf fjölda manns og jafnvel enn fleiri dýra séu í bráðri hættu vegna þurrkanna, þar sem vatnsból manna og dýra þorni upp eitt af öðru og neysluhæft drykkjarvatn sé víða á þrotum. Þá sé áveituvatn einnig hverfandi og allsherjar uppskerubrestur og matvælaskortur vofi yfir. Verst er ástandið í suðurhluta landsins.

„Úrkoman það sem af er ári nægir ekki til að uppfylla grunnþarfir heimilanna, auk þess sem atvinnulífið, landbúnaðurinn og dýralífið í landinu þarfnast,“ sagði Mnangagwa á fréttamannafundi í Harare, þar sem hann biðlaði til hjálparsamtaka og fyrirtækja, innlendra jafnt sem erlendra, um aðstoð. Mikill meirihluti fjárins á að fara í matvælaaðstoð, en einnig er gert ráð fyrir töluverðri uppbyggingu og endurnýjun á áveitum og vatnsbólum. Búið er að setja á laggirnar sérstaka ráðherranefnd sem hafa á umsjón með aðgerðum og viðbrögðum gegn þurrkinum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV