Þuríður Jónsdóttir

12.02.2016 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í þriðja þætti þáttaraðarinnar Tónskáldin með eigin orðum ræðir Hjálmar H. Ragnarsson við Þuríði Jónsdóttur, tónskáld. Útgangspunkturinn eru verk Þuríðar og þróun hennar sem tónskálds. Þau ræða ýmsa þá þætti sem liggja að baki tónsmíðunum, allt frá grunnþáttum tónsmíða yfir í spurningar um kveikjuna að tónverki, uppsrettur hugmynda, og tilgang þess að semja tónlist.

Þuríður byrjar sitt tónlistarnám sem barn og unglingur við Tónlistarskólann í Kópavogi þar sem hún lærir fyrst á blokkflautu og píanó, en færir sig síðar yfir á þverflautu. Hún  sækir tíma í sögu og samtímatónlist hjá Karólínu Eiríksdóttur tónskáldi, og opnast henni þá fyrir henni ný og öðruvísi tónlist en hún áður þekkti. Þá hefur það mótandi áhrif á Þuríði að hún syngur í mörg ár í Skólakór Kársness, og fer síðan í Dómkórinn.

Að loknu stúdentsprófi innskrifast Þuríður í tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík, þá um tvítugt, og stundar þar fullt nám í tvö ár, samtímis því að hún heldur áfram námi í flautuleik og söng. Það er einmitt á árunum í tónfræðadeildinni sem hún semur sín fyrstu fullbúnu tónverk, þótt hún í dag telji þau ekki fram á sínum opinbera verkalista.

Þuríður flytur sig til Ítalíu 1990 og hefur nám í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Bologna. Helstu kennarar hennar í tónsmíðum eru Alessandro Solbiati og Lelio Camilleri. Hún sækir sumarnámskeið á Ítalíu hjá Franco Donatoni, sem á þeim tíma var bæði áhrifamikið tónskáld og kennari.

Á þessum tíma er Þuríður komin með fjölskyldu og þau hjónin eru bæði tónlistarmenn og taka virkan þátt í tónlistarlífinu í Bologna og víðar um Ítalíu. Að loknu námi starfa þau bæði áfram á Ítalíu í nokkur ár og Þuríður hefur lifibrauð sitt af flautuleik meðfram tónsmíðunum. Árið 2005, eftir sextán ára dvöl á Ítalíu, flytur Þuríður heim til Íslands ásamt með fjölskyldu sinni, og hefur hún starfað hér síðan sem tónskáld og tónlistarmaður.

Alls hefur Þuríður samið um 50 til 60 tónverk. Kammerverk ýmis konar skipa stærstan sess í höfundaverki hennar, og eru mörg þeirra í samspili við rafhljóð, annaðhvort af bandi eða sem mótast samtímis af samspilinu við hljóðfærin.

Þuríður hefur samið þrjú stærri hljómsveitarverk, Flow and Fusion (2002), Flutter, einleikskonsert fyrir flautu, náttúruhljóð af bandi, og sinfóníuhljómsveit sem hún samdi 2008 í tilefni aldarminningu Oliviers Messiaen, og Miss Reykjavík Rita, sem hún skrifaði árið 2014. Þá hefur hún samið nokkur einleiksverk fyrir ýmis hljóðfæri, t.d. fyrir píanó, sembal, flautu og óbó, kórverk af ýmsu tagi, söngverk, og ekki síst hefur hún gert ýmsar hljóðinnsetningar, sem miðast við ákveðið rými eða pláss. 

Í þættinum eru leikin brot úr ýmsum verkum Þuríðar frá ólíkum tímum, allt frá því elsta til þess nýjasta.

 

 

Tónskáldin með eigin orðum