„Þurfum að vera vel upplýst um eignarhaldið“

20.03.2017 - 08:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur óskað eftir fundi í efnahags-og viðskiptanefnd vegna kaupa kaupa bandarískra og breskra fjárfestingasjóða og fjárfestingabankans Goldman Sachs á tæplega þrjátíu prósenta hlut í Arionbanka. Hún segir aðalatriðið í að byggja upp traust og trúverðugleika á markaði sé gagnsætt eignarhald á fjármálafyrirtækjum.

Arion banki hefur síðustu ár verið í 87% eigu þrotabús Kaupþings, en ríkissjóður á 13%.

Í gærkvöld tilkynntu Kaupþing og Arion banki að Kaupþing hefði selt rúmlega 29% hlut. Samkvæmt tilkynningunni eru kaupendurnir fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital með 9,99% hlut, Taconic Capital Advisors UK með 9,99% hlut, félag tengt bandaríska fjárfestingarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group með 6,6% hlut og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs með 2,6% hlut.

Lilja var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og hún segir að það skorti meiri upplýsingar um hverjir séu að kaupa og hverjir séu endafjárfestar. Hún hafi því óskað eftir fundi í efnahags-og viðskiptanefnd til að fá þessar upplýsingar. „Aðalatriðið í að byggja upp traust og trúverðugleika á markaði er gagnsætt eignarhald á fjármálamörkuðum,“ segir Lilja.

Hún segir að það sem sé gott við þessa sölu sé að þarna sé verið að greiða hluta af stöðugleikaframlaginu og staða ríkissjóðs verði betri fyrir vikið. „En ég tel að í ljósi sögunnar að þá þurfum við að vera mjög vel upplýst um hvert eignarhaldið er og hverjir standa á bakvið þetta. Eins og til að mynda með Goldman Sachs og ég held að það sé alltaf gott að fá upplýsingar um þá aðila sem verða leiðandi á íslenskum fjármálamarkaði.“