Þurfum að huga að hættum á fjöldasamkomum

12.06.2017 - 19:28
„Við ræddum hryðjuverkaógnina almennt á þessum fundi og netöryggismálin. Þessi mál geta tengst,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í kvöld að loknum fundi Þjóðaröryggisráðsins á Keflavíkurflugvelli. „Á vettvangi Þjóðaröryggisráðsins er við því að búast að þeir sem um þessi mál fjalla í stjórnkerfinu deili með okkur upplýsingum um það sem berst að utan af upplýsingum eða menn verða áskynja hér á landi. Um þá hluti, verður eðli málsins samkvæmt, að ríkja trúnaður.“

Fundurinn var haldinn á öryggissvæðinu vegna þess að það uppfyllir nauðsynlegar öryggiskröfur.

Lögregla hefur á grundvelli nýs almannahættumats Ríkislögreglustjóra aukið viðbúnað sinn á fjöldasamkomum hér á landi. Þetta var gert í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bretlandi og víðar. Í Litahlaupinu á laugardaginn mátti til dæmis sjá sérsveitarmenn vopnaða skammbyssum auk þess sem lögregla lokaði götum með því að leggja fyrir þær stórum vörubílum í stað þess að nota girðingar, borða eða keilur. Viðbúnaðarstig hefur hins vegar ekki verið hækkað.

„Það hvernig lögreglan hyggst bregðast við þegar um er að ræða fjöldasamkomur og hvernig þeir meta stöðuna hverju sinni eru hlutir sem er langbest að ríkislögreglustjóri eða lögreglan í landinu svari fyrir. En í þessu sambandi þá er ekki hægt að segja að við Íslendingar getum litið svo á að um alla framtíð séum við undanskilin þegar kemur að því að þurfa að leggja mat á hættur af þeim toga sem við höfum verið að sjá raungerast í löndunum í kringum okkur. Það þarf ekki mikið til og það er mikilvægt öryggisatriði fyrir borgarana að hugað sé að mögulegum hættum sem steðja að fjöldasamkomum," sagði forsætisráðherra í viðtali við Jóhann Bjarna Kolbeinsson fréttamann að loknum fundi. 

Bjarni segist skilja vel að fólki bregði við að sjá vopnaða lögreglumenn hér á landi, en það fylgi því að vera með sérsveit. „Ef menn hafa lagt það mat á stöðuna að það sé rétt að sérsveitin sé á staðnum að þá ætti það ekki að koma neinum á óvart að hún sé vopnum búin." 

Það þurfi ekki að vera neikvætt. „Mér finnst að það þurfi alls ekki að vera það. Ég held að við getum eins horft á hina hlið þess máls að menn geta verið vissir um að það sé verið að gera það sem þarf til að menn séu öryggir. Hingað til hefur það gengið vel og ég held að fólki almennt finnist að svo sé búið um hnútana hér á þessu landi af stjórnvöldum og við búum líka í þannig samfélagi að við séum öruggari heldur en á við annars staðar. Almenna lögreglan á Íslandi er ekki vopnum búin og er sú eina sem það á við af Norðurlöndunum."

Horfa má á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV