Þurftu að bíða um borð vegna veðurs

14.03.2016 - 01:14
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Á annað þúsund farþega í níu millilandavélum þurftu að bíða um borð dágóða stund eftir lendingu í Keflavík, þar sem vindur var of mikill til að þær gætu lagst við landganga. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði í samtali við fréttastofu stundarfjórðungi fyrir eitt að vélarnar væru að leggjast að og farþegar við það að ganga frá borði.

Meðal þeirra sem sátu fastir í flugvél Icelandair var rappsveitin umdeilda Reykjavíkurdætur.  

Steiney Skúladóttir, liðsmaður sveitarinnar, segir að þær hafi beðið í um klukkutíma - hún hafi nýtt tímann í að horfa á þátt af Rétti og því hafi tíminn liðið frekar hratt.  Hún segist aldrei hafa séð jafn langa röð í vegabréfaeftirlitið. „Það eru allir frekar rólegir. Ætli fólk sé ekki bara frekar þreytt og vilji komast heim í bólið?“

Fyrstu vélarnar lentu um klukkan hálftólf en flugi nokkurra véla var frestað í kvöld, til að sneiða hjá óveðrinu, og er von á þeim síðar í nótt. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Helga Kristín Auðunsdóttir  -  RÚV
Svona var umhorfs í Leifsstöð skömmu eftir að farþegum var hleypt út.
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV