Þurfi að loka ferðamannastöðum í frostleysinu

15.04.2017 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Fjölsóttir ferðamannastaðir koma illa undan hlýjum vetri. Landgræðslustjóri vill að fleiri stöðum sé lokað á meðan frostlaust er og gróður ekki farinn að spretta. Hann segir marga leiðsögumenn stunda óábyrga ferðamennsku og fara með stóra hópa á viðkvæm svæði. Íslendingar þurfi að vera ófeimnari við það að taka á straumi ferðamanna og stýra umferðinni betur.

 

Veturinn hefur verið óvenjuhlýr og desember og febrúar voru sérlega hlýir en janúar og mars nær meðallaginu, að því er kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þetta er fjórði hlýjasti vetur í Reykjavík, á Akureyri og í Stykkishólmi frá upphafi mælinga. 

Árni Bragason landgræðslustjóri segir að landið komi almennt betur undan vetri en vant er. „Það sem við erum búin að sjá er er heldur betra. Okkar starfsmenn eru svo sem ekki búnir að fara mjög víða um. Þau er náttúrulega mjög óvenjuleg staða núna, það er nánast hvergi frost í jörðu. Ef ekki verða hret, bakslag og þurrkar sem gætu skemmt fyrir, þá lítur þetta bara ansi vel út,“ segir Árni. 

Öðru máli gegni um svæði sem eru eftirsótt af ferðamönnum. „Ferðamannastaðirnir fara kannski verr en ella. Því það er skelfilegt að sjá suma af þessum stöðum eins og við Seljalandsfoss og Skógafoss. Umhverfisstofnun þurfti hreinlega að loka svæði við Skógafoss því það var allt orðið útsparkað. Það þyrfti að loka á fleiri stöðum. Þegar frost er í jörðu geta menn gengið á harðri skelinni en núna fara menn niður úr drullunni,“ segir Árni.

Hann segist ekki geta talið upp hvaða svæðum þyrfti að loka. „En maður er að heyra af mörgum stöðum þar sem stígar eru að breikka og sparkast út. Það sem við þurfum að gera auðvitað að mínu áliti er að vera ófeimnari við það að taka á og hreinlega stýra umferðinni betur og þar þurfa allir að sýna ábyrgð. Leiðsögumenn þurfa auðvitað að sýna þá ábyrgð að stýra sínum gestum og reyna að hafa áhrif á það að þeir séu meðvitaðir um það hvar þeir ganga og hvað þeir sparka út. Allir ferðaskipuleggjendur þurfa auðvitað að sýna ábyrgð. Það eru margir því miður sem ekki sýna ábyrgð og finnst í lagi að þeir fari með stóra hópa. Það vita allir hversu mikil fjölgun hefur orðið og við höfum engan veginn haldið í,“ segir Árni.