Þurfa vernd gegn glæpasamtökum

03.04.2013 - 12:16
Mynd með færslu
Konur á leið úr vændi sem dvöldu á síðasta ári í Kristínarhúsi, sem er úrræði á vegum Stígamóta, hafa þurft lögregluvernd gegn skipulögðum glæpasamtökum og handrukkurum. Þetta kom fram á fundi hjá Stígamótum í morgun þar sem farið var yfir starf samtakanna á síðasta ári.

Tuttugu konur dvöldu í Kristínarhúsi í fyrra, ellefu eru íslenskar en hinar flestar frá Austur-Evrópu eða Afríku. Á árinu dvöldu níu börn í Kristínarhúsi. Sum þeirra eru af erlendum uppruna og hafa verið á miklu flakki milli landa með mæðrum sínum og búið við erfiðar aðstæður. 

„Það kom okkur svolítið á óvart hversu mörg börn fylgja konunum sem eru að koma úr vændi og mansali,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnisstjóri í Kristínarhúsi. „Eins kom það á óvart hversu margar konur eiga við fíkn að stríða, en af þessum tuttugu eru 14 sem eiga annað hvort við vímuefna- eða áfengisfíkn að stríða. Það er kannski of snemmt að segja hvort það sé orsök eða afleiðing en það er eitthvað sem þarf að skoða.“

Í Kristínarhúsi fá konur á leið úr vændi og börn þeirra aðstoð við að lifa eðlilegu lífi. Húsið er á leynilegum stað og er mikið lagt upp úr öryggi þeirra sem þar dvelja. Steinunn segir að margar kvennanna séu mjög illa á sig komnar eftir að hafa verið beittar líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af mönnum sem gerðu þær út í vændi. Hún segir alveg ljóst að hér á landi sé skipulagt vændi. „Konurnar koma til okkar margar í fylgd lögreglu vegna þess að þær þurfa vernd gegn skipulögðum glæpasamstökum, vélhjólagengjum, klámkóngum og handrukkurum þessa lands.“