Þurfa að bregðast við HIV, sárasótt og lekanda

18.05.2017 - 23:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Marktæk aukning varð á fjölda þeirra sem voru greindir með HIV-sýkingu, lekanda og sárasótt á síðasta ári. Aukningin á tveimur síðarnefndu sýkingunum varð einkum meðal homma. Fjölgun á þeim sem greindust með HIV-smit skiptist jafnt milli gagnkynhneigðr, sprautufíkla og samkynhneigðra. Sóttvarnarlæknir segir þessa þróun kalla á opinber viðbrögð sem eiga að hefjast á þessu ári.

Þetta kemur fram í farsóttarskýrslu fyrir árið 2016 sem embætti landlæknis birti á vef sínum í dag. 

Þar kemur fram að síðastliðin áratug hafi 1-7 greinst árlega með sárasótt á Íslandi. Á það er bent að sýkingin virðist ekki útbreidd hér á landi því í flestum tilvikum hafi mátt rekja uppruna hennar til útlanda. Á árinu 2014 hafi hins vegar orðið skyndilega aukning á sárasóttareinkennum sem síðan hafi færst í aukana.

Það sjáist best á því að í fyrra greindust 33 tilfelli af sárasótt á Íslandi. Árin 2014 og 2015 voru þau 23. 88 prósent þeirra sem sýktust á síðasta ári voru hommar og meðalaldur þeirra var 39 ár. 

Fyrstu einkenni sárasóttar eru sár á þeim stað sem bakterían komst í snertingu við, oftast á kynfærum, endaþarmi eða munni. Fyrstu einkenni koma í ljós tíu dögum til tíu vikum eftir smit. Hægt er að greina sýkinguna með blóðprufu sem hægt er að láta taka hjá öllum læknum.

Í skýrslunni kemur fram að tilkynningum um slíkt lekanda hafi fjölgað nokkuð upp úr 2005. Framan af hafi ný smit verið jafn mörg hjá körlum og konum en frá árinu 2013 hafi lekandatilfellum fjölgað mjög hjá körlum.

Þannig greindust 86 tilfelli af lekanda sem sé nánast tvöföldun frá fyrri árum. Meðalaldur þeirra sem greindist var 24 ár hjá báðum kynjum en karlar voru í miklum meirihluta og er talið að smit tengist samkynhneigð í yfir 70 prósent tilfella. 

Einkenni lekanda eru svipuð og klamydíu en hann getur líka verið einkennalaus. Venjuleg einkenni eru breyting á lit og lykt á útferð úr leggöngum eða þvagrás, sársauki við þvaglát eða verkur í grindarholi, hjá bæði konum og körlum.

En eitt helsta áhyggjuefnið hjá sóttvarnarlækni er þó að óvenjumargir hafi greinst með HIV-sýkingu á síðasta ári eða 27. Þetta séu meira en tvöfalt fleiri en á árunum 2014 og 2015. Af þeim voru 20 karlar en 7 konur. Fjórtán voru með íslenskt ríkisfang en 13 af erlendu bergi brotnu. Uppruni smits var rakið hingað í þrettán tilfellum en hin fjórtán til annarra landa.

35 prósent þeirra sem greindust voru sjö samkynhneigðir, 30 prósent gagnkynhneigðir en 30 prósent með sögu um sprautunotkun. Í skýrslunni segir að óvenjumargir eða fjórir hafi greinst með alnæmi sem er lokastig sjúkdómsins. Þar að auki hafi þrír verið með merki um langt genginn sjúkdóm. „Það bendir til þess að HIV-smit far lengi dult hjá mörgum sem er áhyggjuefni,“ segir í skýrslunni. 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV