Þungir dómar í Norrænu-máli staðfestir

18.05.2017 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Norræna
Hæstiréttur staðfesti í dag þunga dóma yfir tveimur Íslendingum og tveimur Hollendingum í umfangsmiklu fíkniefnamáli. Baldur Guðmundsson var dæmdur í átta ára fangelsi en Davíð Bjarki Berndsen í átta og hálfs árs fangelsi. Tveir Hollendingar, Jeffrey Felice Angelo Uyleman og Peter Schmitz, voru dæmdir í fimm ára fangelsi fyrir aðild sína að málinu. Sá síðarnefndi flúði land þrátt fyrir að hafa verið í farbanni og hefur enn ekki komið í leitirnar.

Íslendingarnir tveir voru sakfelldir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutning á tæplega 20 kílóum af amfetamíni og 2,5 kílói af kókaíni  með Norrænu og fjármagnað að hluta kaup á þeim og kostnað við innflutning þeirra.

Davíð Bjarki krafðist þess að ákærunni gegn sér yrði vísað frá þar sem rannsókn lögreglu hefði verið verulega áfátt. Snemma hefði verið ljóst að tveir nafngreindir Hollendingar hefðu skipulagt smyglið en enginn reki hefði verið gerðu að því að fá þá framselda til Íslands.  Lögreglan hefði ekki haft neinn áhuga á að upplýsa málið né draga þessa tvo menn til ábyrgðar. 

Þessu vísaði Hæstiréttur á bug. Teknar hefðu verið skýrslur af þessum tveimur mönnum í Hollandi og ítrekað verið reynt að fá þá og þriðja vitnið til landsins. Skýrslur þeirra hjá lögreglunni í Hollandi hefðu ekki reynst upplýsandi.

Undirbúningurinn að smyglinu stóð yfir í nokkurn tíma en mennirnir sátu í gæsluvarðhaldi í tólf vikur og voru eftir það úrskurðaðir farbann. Hollendingarnir tveir og Baldur voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar við bæinn Stóra-knarrarnes á Vatnsleysuströnd í lok september fyrir tveimur árum. Davíð var hins vegar handtekinn á heimili sínu seinna um kvöldið.

Hægt er að lesa nánar um málið hér.