Þrýst á Úkraínu að leyfa Rússum að keppa

06.04.2017 - 10:11
Rússneski keppandinn í Eurovision er skráð þriðja á svið í Kænugarði á seinna undanúrslitakvöldi Eurovision, samkvæmt gögnum EBU. „Maður getur eiginlega ekki ímyndað sér hvað gengur á bak við tjöldin við að reyna að leysa þetta mál og reyna að finna einhverja lendingu,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun.

„Málið stendur þannig núna að Úkraínumenn eru ekki að leyfa rússneska keppandanum að koma. Rússar að öllum líkindum völdu keppanda sem þeir vissu að myndi setja Úkraínumenn í vandræði af því að þeir vissu að Yulia þessi hafði farið að syngja á Krímskaga. Þeir í rauninni eru að ögra Úkraínumönnum og Úkraínumenn taka ögruninni og svara fullum hálsi: Banna keppandanum að koma og við hin sitjum á milli í súpunni. Af þeim gögnum sem ég fæ frá EBU er að rússneski keppandinn enn inni, þriðji í röðinni á seinni undanúrslitariðlinum,“ segir Felix. 

Hann telur fréttaflutning um mögulegan flutning keppninnar til Berlínar líklega sögusagnir sem hafi farið á flug á samfélagsmiðlum. Allt of miklu hafi verið kostað til og undirbúningur keppninnar kominn of langt.

Felix telur að Úkraínumenn séu undir miklum þrýstingi um að leyfa rússneska keppandanum að keppa. Úkraínumenn hafa ekki kvikað frá fyrri ákvörðun og þannig stendur málið, segir Felix. Ísland keppir en annað verði að koma í ljós.