Þrjár konur létust í sprengjuárás í Bógóta

18.06.2017 - 03:28
Firefighters stand outside the Centro Andino shopping center in Bogota, Colombia, Saturday, June 17, 2017. A explosion rocked the mall, one of the busiest in Colombia's capital, killing at least one woman and injuring 11 others according to
 Mynd: AP
Þrjár konur létust og ellefu særðust í mikilli sprengingu í verslunarmiðstöð í miðborg Bógóta, höfuðborgar Kólumbíu í dag. Yfirvöld ganga út frá því að hryðjuverkamenn hafi verið að verki. Enrique Penalosa, borgarstjóri Bogóta sagðist afar sleginn og miður sín eftir þessa löðurmannlegu hryðjuverkaárás á Centro Andino verslunarmiðstöðina. Hvorki hann né lögregla hafa viljað nefna ein samtök frekar en önnur í tengslum við sprengjuárásina og engin samtök hafa lýst ódæðinu á hendur sér.

Ein frönsk ferðakona og tvær konur aðrar, hverra þjóðerni hefur ekki verið upplýst, dóu í sprengingunni. Þær voru 23, 27 og 31 árs gamlar. Lögregla segir að sprengjan hafi sprungið inni á snyrtingu í verslunarmiðstöðinni, sem var full af fólki að kaupa inn í aðdraganda feðradagsins, sem haldinn er hátíðlegur þar vestra á sunnudag. Centro Andino-verslunarmiðstöðin er í fjölsóttu verslanahverfi í miðborginni og nýtur mikilla vinsælda meðal ferðafólks. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV