Þrjár fýluferðir hjá slökkviliði

05.01.2016 - 07:02
Slökkviliðsbíll Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Þrjú brunaútköll bárust sem sinna þurfti, en öll reyndust þau minniháttar og aðstoð slökkviliðs óþörf þegar á reyndi.

Í Breiðholti var kveikt í póstkössum í anddyri fjölbýlishúss, en þegar slökkvilið kom á staðinn hafði íbúa tekist að kæfa eldinn með duftslökkvitæki. Í Mosfellsbæ kviknaði í fólksbifreið en eigandi hennar náði að slökkva eldinn áður en slökkvilið kom á staðinn. Þá fór eldvarnarkerfi í Spönginni í Grafarvogi af stað og var slökkviliðsbíll sendur á vettvang. Í ljós kom að sterk pera hafði brunnið yfir með tilheyrandi reyk, en þegar slökkvilið kom að voru rafvirkjar þar á fleti fyrir sem búnir voru að gera það sem gera þurfti og því ekkert sem slökkviliðsmenn þurftu að sinna. Þessar þrjár fýluferðir bættust ofan á óvenju erilsama nótt í sjúkraflutningum, að sögn vakthafandi varðstjóra.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV