Þrír nýir ráðherrar - Ólöf ekki ráðherra

10.01.2017 - 20:41
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í kvöld tillögu formanns síns um ráðherra í nýrri ríkisstjórn. Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson verður utanríkisráðherra og Sigríður Á. Andersen verður dómsmálaráðherra. Jón Gunnarsson fer með samgöngu-, byggða- og sveitarstjórnarmál í innanríkisráðuneytinu og Kristján Þór Júlíusson verður menntamálaráðherra. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir verður ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

„Ólöf Nordal hefur verið í veikindaleyfi og mun áfram verða í veikindaleyfi. Allur þingflokkurinn vonast til þess að við getum sem fyrst aftur notið starfskrafta hennar og þá mun hún að nýju taka sæti í ríkisstjórninni,“ sagði Bjarni. Hann sagði engan þingmann á ráðherrastóli þó vera þar tímabundið.

Hér að neðan má sjá viðtöl sem Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir tók við nýja ráðherra Sjálfstæðisflokksins og væntanlegan forseta Alþingis. Þar fyrir neðan má sjá viðtal hennar við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og verðandi forsætisráðherra.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV