Þriggja vikna gæsluvarðhald

12.02.2016 - 18:50
Hæstiréttur Íslands
 Mynd: RÚV
Karlmaður á höfuðborgarsvæðinu var í Hæstarétti í dag, úrskurðaður í gæsluvarðhald í þrjár vikur fyrir margháttað ofbeldi gegn sambýliskonu sinni.

Kom á lögreglustöð og kærði manninn

Konan mætti á lögreglustöð á föstudaginn í síðustu viku með vinkonu sinni og kærði manninn.  Hún hafði þá verið í sambúð með honum í nokkra mánuði og hafði hann beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi bróðurpartinn af þeim tíma. Þennan dag keyrði ofbeldið úr hófi, að sögn konunnar, þegar hann meinaði henni að fara af heimili þeirra, barði hana, sparkaði í hana, dró hana á hárinu, braut úr henni tönn og nauðgaði henni. Ungur sonur konunnar var heima meðan á þessu gekk.

Áður ráðist á konuna

Annað ofbeldismál gegn manninum er til rannsóknar, en í október var lögregla kölluð að heimili þeirra, vitni hafði heyrt konuna kalla á hjálp. Þegar lögregla kom á staðinn var konan blá og marin og með hamar í hendi, sem hún sagðist hafa sótt til að verjast manninum. Hann var í Hæstarétti í dag, úrskurðaður í gæsluvarðhald til 2. mars; meint brot hans varði meira en tíu ára fangelsi.  Í þessa sögu blandast tilraun mannsins til skjalafals, fíkniefnamál og ofsaleg afbrýðisemi.

 

 

 

Broddi Broddason
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV