Þriggja ára fangelsi fyrir bankarán

25.02.2016 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: SKjáskot  -  RÚV
Ólafur Ingi Gunnarsson og Jóel Maron Hannesson voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdir í þriggja ára fangelsi fyrir bankarán í Landsbankanum í Borgartúni í Reykjavík í lok desember í fyrra. Þeir játuðu brotið skýlaust fyrir dómi.

Meðal rannsóknargagna var myndbandsupptaka úr afgreiðslusal bankans sem tekin er af þeim Ólafi og Jóel fremja ránið. Á henni sést hvernig þeir koma hlaupandi inn í bankann með andlitin hulin. Ólafur Ingi heldur á byssu en Jóel á hníf. Á upptökunni sjást þeir stökkva yfir afgreiðsluborðið og taka til við að leita að peningum.  Ólafur, vopnaður byssu, sækir bankastarfsmann og ógnar henni með byssunni og ber hana upp að höfði hennar. Jóel sést einnig ógna starfsfólki og viðskiptavinum með hníf. 

Í dóminum kemur fram að til undirbúnings ráninu hafi þeir tekið sendibifreið ófrjálsri hendi og komið á henni að bankanum. Þeir skildu bifreiðina eftir í gangi og óku á brott eftir ránið. Þeir földu síðar ránsfenginn og reyndu á annan hátt að dylja slóð sína. 

Lögreglan fann bílinn fljótlega eftir ránið og var myndum af mönnunum dreift til fjölmiðla. Þeir gáfu sig fram við lögreglu að tilstuðlan aðstandenda sinna um miðnætti sama dag og ránið var framið og vísuðu á ránsfenginn sem komst til skila. Við ákvörðun dóms var tekið tillit til þessa og ungs aldurs þeirra en þeir báðir um tvítugt.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV