Þriðji meirihlutinn á kjörtímabilinu

15.01.2016 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: www.langanesbyggd.is  -  Langanesbyggð
Óformlegur meirihluti tók til starfa í Langanesbyggð í gær. Hann er sá þriðji sem starfar í sveitarfélaginu frá kosningum í maí 2014. Framtíðarlistinn, Nýtt afl og Reynir Atli Jónsson, sem kosinn var í sveitarstjórn á lista Nýs afls en sagði sig síðar frá honum, mynda nýjan meirihluta.

Samstarfið er sagt óformlegt og snúast um okkur verkefni og skipun í embætti. Þar á meðal er hönnun og bygging leikskóla og stefna um næstu skref vegna áforma um stórskipahöfn í Finnafirði. Reynir Atli Jónsson var í gær kosinn oddviti og Hulda Kristín Baldursdóttir varaoddviti. Hulda Kristín er 22 ára. Hún var yngsti frambjóðandinn á landsvísu sem náði kjöri í sveitarstjórnarkosningum 2014.

Meirihlutinn sem nú tekur til starfa er skipaður sama fólki og stóð að fyrsta meirihlutanum, undir merkjum Framtíðarlistans og Nýs afls, eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Sá meirihluti sprakk í febrúar í fyrra, innan við ári eftir kosningar. Þá sagði Reynir Atli Jónsson sig úr Nýju afli og myndaði meirihluta í samstarfi við U-lista. Sá meirihluti starfaði fram að sveitarstjórnarfundi um miðjan desember þegar Reynir Atli lagði fram vantrauststillögu á Siggeir Stefánsson oddvita, og fyrsta mann á lista U-listans, sem var samþykkt. Það var vegna óánægju Reynis og fleiri í sveitarstjórn með framgöngu Siggeirs í málum sem snúa að stórskipahöfn í Finnafirði.

Síðasti meirihluti sprakk daginn eftir að tilkynnt var að sveitarfélög á Norðurlandi eystra, íslenska ríkið, þýska fyrirtækið Bremenport og Efla myndu standa að viljayfirlýsingu um byggingu stórskipahafnar. U-listinn lagði til á fundinum í gær að viljayfirlýsingin yrði tekin fyrir. Það frestaðist.