Þórður Rafn í fjórða sæti fyrir lokahringinn

07.03.2016 - 18:14
Mynd með færslu
Þórður Rafn Gissurarson úr GR er Íslandsmeistari í höggleik.  Mynd: GSÍ
Íslandsmeistarinn í golfi, Þórður Rafn Gissurarson úr Golfklúbbi Reykjavíkur, er í fjórða sæti fyrir lokahringinn á Open The Tony Jacklin mótinu sem fram fer á þýsku atvinnumannamótaröðinni en leikið er í Casablanca í Marokkó. Þórður Rafn hefur leikið fyrstu tvo keppnisdagana á samtals átta höggum undir pari.

Þórður Rafn lék frábærlega í dag eða á 67 höggum sem er fimm höggum undir pari. Þórður fékk sex fugla og einn skolla á hringnum í dag. Hann er þremur höggum á eftir Þjóðverjanum Julian Kunzenbacher sem er samtals á ellefu höggum undir pari.

„Ég var alltaf með boltann í leik og á þægilegum stöðum til að slá beint á pinna. Ég var ekki að slá vel á fyrri níu holunum en var sem betur fer að pútta vel. Slátturinn batnaði á seinni níu. Það skilaði fleiri fluglum,“ sagði Þórður í samtali við rúv.is eftir hringinn í dag.

Lokahringurinn fer fram á morgun og Þórður góðan möguleika á sigri haldi hann áfram að leika vel. Segja má að þýska mótaröðin sé þriðja deildin í atvinnugolfinu í Evrópu. Þórður Rafn, sem sigraði á Íslandsmótinu í höggleik á síðasta ári, stefnir að því að vinna sér inn keppnisrétt á Evrópumótaröðinni sem er sterkasta mótaröð Evrópu.

Staðan í mótinu

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður