Þjóðverjar boða hert lög vegna innflytjenda

12.01.2016 - 15:49
epa05090340 Police officers standing outside the main station next to Cologne cathedral, in Cologne, Germany, 06 January 2016.  After sexual assaults on women at New Year, there is an increased police presence at the main station.  EPA/MAJA HITIJ
Eftirlit lögreglu hefur verið hert við aðaljárnbrautastöð og dómkirkju Kölnar.  Mynd: EPA  -  DPA
Þýska ríkisstjórnin áformar að breyta hegningarlögum landsins þannig að auðveldara verði en hingað til að vísa innflytjendum úr landi, sem brjóta af sér. Kynferðisbrotamenn á að svipta flóttamannaréttindum sínum.

Heiko Maas dómsmálaráðherra greindi frá þessu á Twitter í dag. Með þessu sagði hann ríkisstjórnina vilja senda skýr skilaboð um að engir íbúar Þýskalands væru hafnir yfir lögin, hvorki flóttamenn, hælisleitendur né aðrir.

Á sjötta hundrað kærur

Ólga er í Þýskalandi frá því að hundruð karlmanna, aðallega af arabískum og norður-afrískum uppruna, réðust á konur í miðborg Kölnar á gamlárskvöld, misþyrmdu þeim, rændu eða beittu kynferðislegu ofbeldi. Alls höfðu í dag verið lagðar fram 533 kærur, - 45 af hundraði vegna kynferðisofbeldis. - Nokkrar konur hafa kært nauðgun. Að sögn yfirvalda í Köln eru hinir meintu afbrotamenn í langflestum tilfellum af erlendum uppruna.

Óeirðir í Leipzig

Um það bil tvö þúsund áhangendur PEGIDA-samtakanna, sem berjast gegn því sem þeir kalla íslamsvæðingu Evrópu, tóku þátt í mótmælagöngu gegn innflytjendum í Leipzig í gærkvöld. Göngumenn beindu reiði sinni að Angelu Merkel kanslara sem þeir sögðu hafa verið allt of viljuga til þess að taka á móti flóttafólki. Hópur mótmælenda lét ófriðlega, braut rúður og kveikti í bílum og ruslagámum. Á þriðja hundrað voru handteknir. Einnig efndu andstæðingar PEGIDA til mótmæla í Leipzig í gærkvöld. Þeir eyðilögðu meðal annars rútu sem PEGIDA-menn höfðu tekið á leigu.