Þjóðhátíðardeginum fagnað um allt land

17.06.2017 - 07:00
Mynd með færslu
Frá 17. júní hátíðarhöldum á Akureyri.  Mynd: Ágúst Ólafsson  -  RÚV
Þjóðhátíðardagurinn er haldinn hátíðlegur um land allt í dag. Skrúðgöngur, tónleikar og hoppukastalar verða á sínum stað en óhefðbundnari viðburðir eins og skemmtikraftar sem spúa eldi, LEGO-samkeppni og kassaklifur eru líka í boði.

Í Reykjavík hefst dagskráin klukkan tíu með morgunathöfn við Austurvöll. Klukkan 10:15 hefst svo guðsþjónusta í Dómkirkjunni. Meðal viðburða á dagskránni í höfuðborginni Götuleikhúsið sem verður með ýmsar uppákomur og tekur höndum saman með Stuðmönnum og fara á tveimur stórum pallbílum niður Laugaveginn og reka lestina í skrúðgöngu, spúandi eldi. Dagskránni í Reykjavík lýkur með tónleikum Svölu, Kvennakórsins Kötlu og Between Mountains á KEX Hostel.

Hafnfirðingar taka daginn snemma þar sem fánar verða dregnir að húni klukkan 8:00. Dagskrá verður á Thorsplani frá klukkan 13:30 með ávarpi fjallkonu og nýstúdents. Austurgötuhátíðin hefur notið mikilla vinsælda en hún verður haldin í sjötta sinn í ár. Þar verður margt spennandi í boði, svo sem heimilislegt kaffihús , tælenskur veitingastaður og flóamarkaðir.

Í Kópavogi byrjar hátíðardagskráin á hlaupi fyrir börn í 1. til 6. bekk. Hátíðar- og skemmtidagskrá verður á Rútstúni klukkan 14:00 þar sem skólahljómsveit Kópavogs spilar og skemmtikraftar koma fram. Frá klukkan 19:30 til 22:00 verða stórtónleikar á Rútstúni þar sem fram koma Birnir, Reykjavíkurdætur, Emmsjé Gauti og SSSól.

Í Mosfellsbæ hefst dagskráin í Lágafellkirkju klukkan 11 með hátíðarguðsþjónustu þar sem skátar standa heiðursvörð. Blakdeild Aftureldingar vígir nýjan strandblakvöll á útivistarsvæðinu Stekkjarflöt við Álafoskvos. Fjölskyldudagskrá verður við Hlégarð frá klukkan 14 til 16.

Garðbæingar byrja daginn á 17. júní móti Golfklúbbs Álftaness sem hefst klukkan 10. Í Vífilsstaðavatni verður ókeypis veiði allan daginn. Hátíðardagskrá verður við Ásgarð þar sem fram koma Villi og Sveppi, Skoppa og Skrítla og fleiri.

Á Akureyri hefst hefðbundin hátíðardagskrá klukkan 13:00 í Lystigarðinum. Meðal þeirra sem fram koma er Lúðrasveit Akureyrar. Skrúðganga leggur af stað úr Lystigarðinum klukkan 13:45 og verður gengið inn á Ráðhústorg þar sem fjölskyldudagskrá hefst.  

Á dagskránni í Reykjanesbæ verður boðið upp á víðavangshlaup knattspyrnudeidlar UMFN klukkan 11:00. Fánahylling verður 14:00. Að henni lokinni verður hefðbundin dagskrá með ávarpi fjallkonu, ræðum og söng.  

Á Ísafirði hefst dagskráin með hátíðarguðsþjónustu klukkan 13:00. Setning þjóðhátíðar verður klukkan 14:15 þar sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flytur ræðu. Á Suðureyri verður Víðavangshlaup klukkan 11:00.

Á Egilsstöðum hefst dagskráin með kassabílaþrautum klukkan 9:30. Fjölbreytt dagskrá verður fram eftir degi, svo sem andlitsmálun, Lego samkeppni, skrúðganga, fimleikasýning og fleira. 

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir