Þjóðernissinnar vilja sameina hægri vænginn

13.08.2017 - 13:08
White nationalist demonstrators clash with counter demonstrators at the entrance to Lee Park in Charlottesville, Va., Saturday, Aug. 12, 2017.  Gov. Terry McAuliffe declared a state of emergency and police dressed in riot gear ordered people to disperse
 Mynd: AP
Þrír hafa látið lífið í tengslum við átök andstæðra fylkinga í borginni Charlottesville í Virginíu í Bandaríkjunum. Nýnasistar, Ku Klux Klan og fleir hópar ofstækisfullra þjóðernissinna stóðu fyrir útifundum í borginni í gær.

Slagorð fundarmanna í Charlottesville var „Sameinum hægri vænginn“ og sló í brýnu með þeim og hópi fólks, sem safnaðist saman til að mótmæla málflutningi þeirra og fundarhöldum.

32ja ára gömul kona dó og 19 særðust þegar maður ók bíl sínum vísvitandi inn í hóp andstæðinga öfga-þjóðernissinnanna. Á myndbandi sem vegfarandi tók upp sést bíll aka inn í þvögu og fjöldi manna verður fyrir bílnum. Bíllinnn stöðvar og bakkar síðan á annan hóp vegfarenda sem var aftan við bílinn að reyna að stöðva ökumanninn. Tvítugur karlmaður ók bílnum, hann hefur verið handtekinn og er málið rannsakað sem morð. Þá fórust tveir lögreglumenn þegar þyrla sem þeir notuðu við eftirlitsstörf hrapaði spölkorn frá samkomustað öfgahreyfinganna.

Ríkisstjóri Virginíu lýsti í gær yfir neyðarástandi í Charlottesville. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fordæmt ofbeldið frá öllum hliðum, en lét eiga sig að fordæma aðgerðir þjóðernissinnanna sérstaklega. Það hefur vakið gremju margra, ekki síst innan raða Repúblikana. Öldungardeildarþingmaðurinn Cory Gardner ákallaði forsetann og sagði að menn yrðu að kalla hið illa sínu rétta nafni. Undir það hafa margir málsmetandi menn flokksins tekið. 

Jeff Sessions dómsmálaráðherra hefur tekið sýnu sterkar til orða en Bandaríkjaforseti. Hann segir að ekki sé hægt að líða þá þröngsýni og kynþáttahatur sem þjóðin verði vitni að í Charlottesville, slíkt sé svik við grundvallargildi bandarísks samfélags.